Skógarkerfill

Mig langar að vekja athygli ykkar kæru Kerhraunarar á þessari plöntu sem ég tel að sé farin að dreifa sér hér inn á svæðinu okkar en Skógarkerfillinn er skaðræðisplanta eins og má lesa hér í eftirfarandi grein.

Endilega kannið hvort þessi planta er búin að koma sér fyrir og gerið ráðstafanir.

Áhrif á vistkerfi og menn

Kerfillinn er fljótur til á vorin og myndar samfellda laufþekju sem skyggir á lágvaxnari tegundir sem eiga flestar erfitt uppdráttar þar sem hann nemur land. Myndar hann því tegundasnauðar breiður. Ekki er ljóst hversu lengi kerfillin getur viðhaldist í landi, en líklega er þar um einhverja áratugi að ræða. Algengustu vaxtarstaðir skógarkerfils eru gamlir garðar og tún sem hætt er að hirða um, vegkantar og skurð- og lækjarbakkar. Á undanförnum árum hefur hann víða tekið að vaxa í lúpínubreiðum þar sem nóg er af köfnunarefni. Skógarkerfillinn er hávaxnari en lúpínan og virðist eiga gott með að ná yfirhöndinni í samkeppni við hana. Auk þess er kerfillinn skuggaþolinn og getur vaxið upp af fræi inni í þéttri lúpínubreiðu.

Allt bendir til að óhindruð útbreiðsla skógarkerfils um víðáttumikil gróin svæði leiði til fábreyttari gróðurs og verulegra breytinga á dýralífi, bæði smádýra og fugla. Útivistargildi svæða getur einnig rýrnað þar sem kerfillinn breiðist um sérstaklega í blómlendi og með ám og lækjum. Gömul tún sem ekki eru lengur nytjuð eyðileggjast á fáum árum og spillast sem ræktarland nái kerfillinn yfirhöndinni. Líklega þarf að endurrækta tún ef nýta á landið á nýjan leik. Rofhætta getur aukist í landi þar sem kerfill er ríkjandi vegna þess að undirgróður er þar rýr og yfirborð bert og illa varið fyrir vatnsrofi að vetrarlagi.

Mögulegar aðgerðir

Mjög erfitt er að stemma stigu við útbreiðslu kerfilsins þegar hann er kominn í land. Besta ráðið er að koma á veg fyrir að hann nái að fella fræ og skjóta rótum. Skógarkerfill myndar ekki langlífan fræforða en rætur hans eru lífseigar. Verði hans vart á nýjum stöðum er best að eyða ungum og stökum plöntum og þannig að þær nái ekki að blómstra. Helstu ráð til að eyða honum þar sem hann hefur búið um sig er að slá a.m.k. tvisvar á sumri eða beita hann. Sennilega er það helst sauðkindin sem getur haldið honum í skefjum, nautgripir bíta hann nokkuð en hross hafa að öllum líkindum lítinn áhuga á honum. Þá er hægt að stinga upp rætur, en það útheimtir mikla vinnu og fyrirhöfn og er aðeins framkvæmanlegt þar sem um stakar plöntur eða mjög litlar breiður er að ræða.

Loks má nefna að tilraunir hafa verið gerðar til að eyða skógarkerfli með eiturefnum. Niðurstöður benda til þess að unnt sé að ná nokkrum árangri með þeim hætti en ávallt skal líta á þá leið sem neyðarúrræði.Óæskilegt þykir að beita eiturefnum á skógarkerfil þar sem hann vex í fremur rökum jarðvegi eða við lækjar- og vatnsbakka þar sem hætta er á að efnin berist út í vatn og valdi þar mengun og skaða á öðrum lífverum.

 

Þessi frétt var birt í Bláskógarbyggð öllum til viðvörunar

Skógarkerfill breiðist nú hratt út í sveitarfélaginu Bláskógarbyggð og  er afar brýnt að allir taki  höndum saman um að útrýma honum. Enn er útbreiðsla hans viðráðanleg og enn er hægt að grípa til aðgerða gegn honum. Mikilvægt er að bíða ekki með aðgerðir, þær verða erfiðari og kostnaðarsamari eftir því sem tíminn líður en að lokum verður útbreiðslan kerfilsins óviðráðanleg.

Kerfillinn vex á frjósömu landi og verður plöntu- og dýralíf fábreytt þar sem hann vex. Hann kemur sér gjarna fyrir í gömlum túnum sem ekki eru í notkun og eyðileggjast þau  og spillast sem ræktunarland á fáum árum. Rofhætta eykst þar sem kerfill vex þar sem undirgróður rýrist og yfirborðið verður bert og illa varið fyrir vatnsrofi að vetrarlagi.

Kerfillinn myndar mikil fræ og dreifist auðveldlega og getur útbreiðsla hans orðið stórt vandamál ef ekkert er að gert. Það er mikið hagsmunamál fyrir bændur og garðræktendur að takist að stöðva útbreiðslu hans.

Hægt er að sporna við útbreiðslu kerfils með því að:

  • Rífa upp minni plöntur
  • Stinga upp stærri plöntur og jarðvegsskipta þar sem þær hafa vaxið nokkur ár og fellt fræ
  • Eitra fyrir plöntum

Athugið að sláttur getur aukið rótarskot kerfilsins þannig að hann breiðist enn hrarðar út og ætti helst að nota slátt sem fyrirbyggjandi aðferð áður en plantan kemst á legg.