Jólastress – þjáist einhver af því þá eru hér nokkur góð ráð

Jólastressið gæti farið að ná hámarki þessa dagana enda 12 dagar í aðfangadag. Hægt er að sjá að bílstjórar eru að verða óþolinmóðari, fólk er farið að spretta úr spori, stinga af 10 mínútum fyrr úr vinnu og vaka aðeins lengur inn í nóttina.

Góð ráð

1. ráðið
Losaðu spennuna reglulega. Það er ekkert að því að segja fjölskyldunni að þú þurfir smá hvíld frá þeim. „ Elska ykkur öll en þarf að fá hálftíma fyrir sjálfa/nn mig“ virkar yfirleitt vel. Leggstu inn í rúm og hugleiddu í 30 mínútur. Farðu út og skokkaðu eða labbaðu. Líkamsræktarstöðvar eru yfirleitt opnar að einhverju leyti. Í versta falli skaltu fara á klósettið, læsa og anda hægt og mjög djúpt í um það bil tíu skipti.

2. ráðið
Hugur er líkamanum æðri eða hvernig sem þetta „mind over body“ hljómar nú á okkar ylhýra. Ef þér tekst að útbúa aðstæður þar sem þú getur hugsað um draumana þína eða það sem lætur þér líða vel slakar þú vel á. Láttu renna í bað, kveiktu á kertum og hugsaðu um draumaeyjuna, draumaferðalagið eða jafnvel draumaflíkina. Nú og ef þú ert einhleyp/ur þá er um að gera að hugsa um draumamakann. Ef þér tekst þetta vel nærðu fram áhrifum sem láta þig slaka vel á.

3. ráðið
Alveg eins og bíllinn þarf eldsneyti þarft þú ákveðna hluti til að virka. Eitt af því er súrefni og já ekki bara með venjulegum andardrætti því það skiptir máli hvernig þú andar að þér. Streita veldur grynnri andardrætti og því er mikilvægt að taka sér fimm mínútur á dag og anda djúpt. Vertu úti við. Slakaðu á og dragðu djúpt andann svona 10 sinnum. Einu sinni á dag yfir hátíðarnar og þú finnur mun.

4. ráðið
Í dag snýst allt um að múltítaska og enginn maður með mönnum eða kona með konum nema að kunna það upp á tíu. Þetta er bara vitleysa segja austurlenskir hugsuðir. Í Búddatrú er lagt upp með að gera hvern hlut vel. Prófaðu því að hætta um að hugsa um þéttskipaða dagskrána þína. Hugsaðu bara um næsta verkefni sem bíður. Leystu það og svo má velta því næsta fyrir sér. Svínvirkar.

5. ráðið
Malt og appelsín og jólakaffið. Virkar vel en ekkert jafnast á við góðan tebolla. Í gosi er svo mikill sykur að við viljum ekki rifja það upp um jólin og í kaffi er góður slatti af örvandi. Hver vill drekka þetta? Grænt te er fínt en kamillute er best. Fáðu þér einn bolla í rólegheitum fyrir svefninn og þess vegna líka einu sinni yfir daginn. Slepptu hinu dótinu.

6. ráðið
Ef ekki á að sýna ást og væntumþykju á hátíðum, hvenær þá? Knúsaðu því krakkana, jafnvel hundinn og farðu alla leið með makanum. Það má alveg stunda kynlíf á jólunum en hafa það bara soldið jólalegt. Skreytið hvort annað og njótið ásta í rólegheitum í baðinu, undir sturtunni eða upp í rúmi. Hægt og hljótt……

7. ráðið
Auðvitað hefur enginn eða að minnsta kosti fáir tíma fyrir nudd en þá má bara bjarga sér sjálfur. Leggðu hægri hönd á vinstri öxl og öfugt. Nuddaðu rólega bæði með lófa og fingrum. Þetta virkar enn betur ef þú ert ber að ofan og notar örlitla olíu.

8. ráðið
Það þurfa fleiri frímínútur en börnin. Ef þér líður eins og þú sért að springa skaltu fara í frímínútur. Skottastu út í 10 mínútur eða farðu á þinn rólega stað á heimilinu. Slakaðu á, andaðu djúpt. Lestu jafnvel 2–3 blaðsíður í jólabókinni. Þú finnur að það hægist á andardrættinum og hjartslátturinn róast.

9. ráðið
Rétt tegund af tónlist er slakandi. Það er stundum sagt að hálftíma hlustun á góða tónlist jafnist á við 10 mg. af Valíum. Hafðu nokkur lög tilbúin og taktu þér tíma af og til.

10. ráðið
Ef það er komið þannig fyrir þér að þér finnst stressið ekkert gefa eftir þá er skothellt að baka smákökur sem púrtvín er notaði í uppskriftinni – þú býrð til deigið og meðan kökurnar bakast klárar þú púrtvínið

11.ráðið
Ef þér líður illa þá gæti það verið út af púrtvíninu en þetta líður hjá og um að gera að halda ró sinni með því að anda hægt og örugglega.

Síðasta ráðið
Það er gaman að vera saman…og já mundu það. Gerið eitthvað skemmtilegt saman, spila, fara í leiki, lesa saman eða bara eitthvað annað. Hlæið hátt og innilega.