Síðasti dagurinn á öldinni þar sem dagsetningin myndar talnarunu

Í dag er síðasti dagurinn á þessari öld þar sem dagsetningin myndar talnarunu, 11.12.13, en í dag er 11. desember og árið er 2013.

Talnarununa er hægt gera enn lengri með því að bæta við þeirri sekúndu þegar klukkan slær 14.15.16. Kannski tækifæri til að staldra aðeins við í amstri dagsins og velta fyrir sér tilgangi lífsins? Eða bara hvort maður eigi að láta þessa einu smáköku duga sem laumaðist upp í munn áður en haldið var til vinnu í morgun og setja lás á kökuboxið þegar heim er komið.

Það hafa verið nokkrar skemmtilegar dagsetningar síðustu árin og ein sú skemmtilegasta var 7.9.13 en þá voru haldin þó nokkur brúðkaup því bæði þykja tölurnar hver og ein miklar heillatölur en að þylja þær upp í röð og banka í við er gömul hjátrú og er gert eftir að menn hafa sagt eitthvað sem flokka má undir hroka eða oflátungshátt, eitthvað sem þykir ógætilega sagt eða þegar menn fullyrða nokkuð sem brugðið getur til beggja vona.

 

Þrátt fyrir þessar vangaveltur þá var fallegt í Kerhrauninu 11.12.13