Hugleiðingar um komandi tíma

Það fer ekki á milli mála að veturinn er að koma, nú er gróðurinn orðinn alveg ber nema barrtrén og annar gróður sem aldrei fellir lauf. Fólk er búið að draga fram úlpurnar sínar og vetrarskjólfatnað.  Alltaf er augunum gjóað í átt til Hellisheiðarinnar að gá til veðurs og spá í það hvort það sé þoka eða hvort það sé að fara að snjóa og skiptir þá engu máli hvort maður er að ferðbúast eða ekki, oft er ástæðan sú að það á að kíkja í Kerhraunið um helgina og það er mun skemmtilegra ef veður er gott.

Nú er kominn tími á kertaljósin og fólk farið að huga að framkvæmdum og öðru sem gott er að byrja snemma á fyrir jólin,  það fer að líða að því að kökukeflið verði tekið fram og flattar verða út laufabrauðskökur sem síðan verða skornar út. Það laufabrauð sem maður fær út í búð tilbúið til laufaskurðar eða bara alveg tilbúið er auðvitað ekki hægt að kalla laufabrauð….)))   Nei, það verður að vera með laufskorningi í kantana og hafa laufin uppábrett og svo steikt upp úr tólg en ekki upp úr jurtafeiti. Þetta er ekki laufabrauð.

Sennilega er maður allt of heimilislegur fyrir þetta tilbúna enda alin upp við það að éta heimagert og almennilegt laufabrauð.

Þegar líður á nóvember veit maður af jólununum handan við hornið og það er alveg öruggt að þegar desember skellur á þá áttar maður sig á því að jólin eru í nánd. Þá kemur þessi mikla tilhlökkun til jólanna með öllum fallegu ljósunum, jólabakstri og endalausri eftirvæntingu. Fyrsta tilhlökkunin snýst um að taka fram og setja upp aðventudótið og setja jólaljós á húsið og í garðinn og svo öll hin verkin þar til jólin sjálf ganga í garð.

Sá árstími sem mörgun finnst hálfsúr er eftir áramótin þegar taka þarf niður jólaljósin, skrautið fer í kassa og í geymslu og allt verður svo tómlegt. Veður eru yfirleitt rysjótt og það virðist eitthvað svo langt í að eitthvað gerist næst. En auðvitað hefur þessi tími eins og aðrir upp á margt að bjóða og nóg er að gera því það þarf að fóðra alla litlu fuglana og njóta þess að sjá þá koma í kornið sitt oft á dag – ekki er það nú leiðinlegt. Á þessum árstíma má helst vænta þess að það snjói og þá lýsist allt upp, börnin elska að leika sér í snjónum og fuglarnir eru líka svo miklir gleðigjafar.

Svo koma þorrablótin og það á líka að halda þorrablót í Kerhrauninu en að vísu áfengislaust blót, svo kemur bolludagurinn, sprengidagurinn og öskudagurinn.

Einhvers staðar þarna á milli verður aðalfundur okkar Kerhraunara, gaman, saman.

Án þess að við tökum mikið eftir því á þessum tíma þá hækkar sólin aðeins á lofti á hverjum degi og smá lýsir okkur inn í næstu árstíð sem er vorið og þá sumarið og koll af kolli. Um að gera að horfa ekki of langt fram í tímann hverju sinni heldur njóta hverrar árstíðar og þess sem hún býður uppá.

1890470_537917672988371_483367119_o