Aðalfundur 2023 – Frambjóðendur

Loksins er komið að því að kynna fólkið sem býður sig fram til stjórnarsetu næsta tímabil og í leiðinni að minna félagsmenn á aðalfundinn sem haldinn verður 11. apríl nk. og hefst kl. 19:30.

Fyrstur er Hörður Gunnarsson sem kynnir sig sjálfur. Hjónin eiga Kerhraun 36.

„Ég heiti Hörður Gunnarsson og er svo heppin að hafa verið hluti af samfélaginu hér í Kerhrauni frá 2009. Í gegnum árin hef ég fyrst og fremst komið að félagsmálum í gegnum íþróttir og átt sæti í ýmsum stjórnum Vals í áratugi. Á næstu vikum mun ég síðan láta af störfum sem framkvæmdastjóri Olíudreifingar eftir áratuga starf. En ég hef ekki tekið formlega þátt í starfi félagsins hér í Kerhrauni en kom á sínum tíma að samningi um hitaveituna og fyrir tveimur árum tókum við nokkrir félagar það að okkur að yfirfara samninginn og leggja mat á stöðu hitaveitunnar.

Síðan hef ég fengið að taka þátt í Fimleikafélagi Kerhrauns með Guðrúnu Njáls en okkar hlutverk hefur verið m.a. að koma upp og laga skilti, setja upp vindpokann góða og önnur tilfallandi störf sem ég hef haft gaman af að sinna. En konan mín hefur meira og minna verið í stjórn félagsins frá því að við komum á svæðið.

Ef ég næ kjöri sem formaður mun ég leggja mig fram um að sinna því starfi vel og virkja ykkur sem flest til góðra verka. Það eru forréttindi að fá að leggja sitt að mörkum við uppbyggingu Kerhrauns en ég mun sérstaklega horfa til áframhaldandi uppbyggingu vegakerfisins, tryggja viðhald girðinga, öryggismál og snyrtilega umgengni – en í raun eru verkefnin óteljandi.

Að því sögðu er ég tilbúinn að bjóða mig fram til formanns og vinna á næsta ári með góðu og öflugu fólki.“

Ofangreind mynd er valin af Guðrúnu með starfslokin í huga. Kannski þarf hann að skila húfunni.

Svava Tyrfingsdóttir hefur boðið sig fram sem ritari þrátt fyrir að segja „Ég skrifa mjög illa“ en tók svo fram að hún væri snillingur á tölvu og gott til þess að vita að áfram verður haldið vel utan um fundargerðirnar. Fyrir þá sem ekki þekkja Svövu þá er hún gift Jóhanni G. Jóhannssyni og eiga þau bústað í Kerhrauni 13 og eru að hamast við að stækka hann enda fjölskyldan stór.

Kynni með mikilli gleði aftur til leiks Hans Einarsson sem hefur unnið gríðarlega gott starf í þágu okkar allra hér í Kerhrauni síðan sautján hundruð og súrkál….)) Hann kom að Samlagsveginum, hitaveitunni, rafhliðinu og ótal öðrum verkefnum. Ofangreint mynd er frá DEN þegar unnið var að fyrstu gögnustígunum.

Fyrir nýbúa þá eiga þau hjónin Kerhraun 99 en Oddný Þóra Helgadóttir betur þekkt sem „Tóta terta“ út af reksti Kerbúðarinnar er hans heittelskaða.

Það getur ekkert félag verið án þessa að hafa 1 spæjó og 1 rannsóknarlögreglumann og um tíma heldur Guðrún spæjónafninu og kynnir til leiks fv. rannsóknarlögreglumanninn Ásgeir Karlsson sem hefur boðið fram krafta sína enda nóg til af þeim.

Ásgeir er giftur Kristínu Helgu Guðmannsdóttur, (Stínu) og eiga þau Kerhraun 57, dætur þeirra hafa verið duglegar að koma að „Olympíuleikum barna“ um Versló. Ásgeir er meðlimur í Golfklúbb Kerhraunsins og stefnir að 1. sæti í næstu keppni.

********************

Það er auðvitað opið fyrir framboð fram að aðalfundi sem er haldinn 11. apríl nk.

Ef þetta fólk nær kosningu þá á KERHRAUNIÐ öflugan hóp í stjórn sem mun leggja sitt að mörkum að sinna þeim verkefnum sem þau eru valin til að leysa af hendi enda vinnur núverandi stjórn af því að leggja fram tillögur að mikilli vegagerð til að klára að mestu þá vegi sem eftir er að byggja upp.