Veðurfréttir eru eitt af áhugamálum Íslendinga og veðurfréttir eru vanmetin skemmtun

Það eru örugglega fáir sem mótmæla því að þeir hafi ekki áhuga á veðurfréttum eða vilji ekki vita hvernig veðrið verður í dag eða á morgun. Frá því að lestur veðurfregna hófst hafa margir velt fyrir sér þeim ýmsu stöðum sem minnst er á í lestrinum.

Tökum dæmi:

Hjón sem eru á leið í ferðalag og eru að reyna að komast að samkomulagi um hvert halda skuli, maðurinn er ákveðinn í að hann vilji fara í Landmannalaugar en konan er ekki alveg viss því hana langar í gott veður. Hún tekur ákvörðun og tilkynnir manni sínum að hún vilji fara til „Aðsigi“.

Mann auminginn er alveg hlessa því þann stað hefur hann heyrt um en veit ekki hvar er. Til að upplýsa ekki um vankunnáttu sína spyr hann sakleysislega, hvar er Aðsigi aftur ? og frúin svarar um hæl, ég veit það ekki en í lestri veðurfréttanna er alltaf talað um að það sé gott veður í „Aðsigi“ og þess vegna vil ég fara þangað.

Svo er það spurningin sem símastúlkan á fréttastofunni fékk.

Hver er þessi Stökustaður sem talað er um í veðurfréttum?

Fyrst er þess að geta að það er spurning hvot spyrjandi var að meina stökustað með litlum staf eða Stökustað með stóru S því munurinn á s og S heyrist sem kunnugt er ekki í framburði. Auk þess bendir allt til þess að spurningin sé hugsuð þannig að um ákveðinn stað (Stað) sé að ræða og auðvitað er ekki hægt að heyra muninn á þessu og ‘stöku stað’ í veðurfréttunum.

En af hverju skyldi vera minnst á veðurfréttir hér á heimasíðu Kerhraunsins?

Það eru blikur á lofti að nú munum við Kerhraunarar verða í beinu sambandi við „Veðurfræðing Kerhraunsins“ á komandi vetri.

Það er mikil tilhlökkun að vita til þess að brátt muni heyrast þegar hringt verður í XXX XXXX,

„Góðan daginn, veðurfréttir les Hans Einarsson“

en hvernig sem þetta þróast þá er formaður vor kominn með veðurstöð í bústaðinn sinn og ef við sjáum ekki neitt í myndavélinni fyrir snjó þá er leið til þess að hann viti betur.

.