Þorrablót Kerhraunara – Heimagerð sviðasulta

Nú þegar styttist í að „Þorrablót Kerhraunara“ hefjist þá verður að minnast á undirbúninginn, því engin yrði veislan nema að einhver tæki það að sér að sjá um undirbúninginn og hver önnur en „Sóley okkar staðarhaldari“ ber hitann og þungann af allri þeirri vinnu.

Það er aðdáunarvert og ómetanlegt að hafa hana innanborðs því eins og sannri kvennaskólapíu sæmir þá gerir hún sviðasultuna frá grunni og þess vegna er forsíðumyndin sultunni til heiðurs. Sóley aflar þeirra fæðu sem við munum snæða á ódýrasta máta sem hægt er að finna.

Engin yrði nú skemmtunin ef ekkert væri húsnæðið til staðar og það leggja þau Hans og Tóta fram og þökk sé þeim.

Eins og einhver sagði „Þar sem tveir eða fleiri koma saman verður gaman saman“ og því ætlum við skemmta okkur þetta kvöld.

Eins og áður kom frá þá verður margt í boði fyrir  þorragesti.
„Stórdúett Lúlla og Alla“ fer á kostum,
„Minni karla“ verður flutt og má geta þess að það verður ekki minnst á hversu lélegt minni þeir hafa á suma hluti,
„Minni kvenna“ verður vonandi flutt…))),
hver veit nema spurningakeppnin verði endurtekin (með nýjum spurningum),
einsöngur,
grínsögur sagðar,
vinnuhópaverkefni og síðast en ekki síst eru það vísnabotnarnir og þar verða vegleg verðlaun í boði svo það er og verður af mörgu að taka.

Fyrir þá sem eru með skáldstíflu og þurfa aðstoð þá eru hér  þrír fyrripartar og það segir örugglega einhver að þeir séu nú pínu grófir en þetta er jú þorrablót og leyfi ég mér að vitna í góðan framsóknarmann sem tekur að sér veislustjórnun, hann segði hátt og skýrt „Út þennan fyrsta“, og hana nú.

1.
Sviðin og magálar seðja sult,
af söngvatni tæru er glasið fullt.

2.
Vertu svo kát við karlinn þinn
þó kippi hann undir morguninn.

3.
Um afleiðingarnar enginn spyr,
því ástina glæða pungarnir.

Mikið verður nú gaman hjá okkur laugardaginn 8. febrúar, munið að mæta kl.  18:30.