Það hefur ekki farið frá hjá neinum sem komið hafa í Kerhraunið að við erum komin með nýtt og varanlegt slitlag á fjölförnustu vegina okkar. Okkur var strax í upphafi sagt að við yrðum að keyra hægt og ekki hraðar en á bókuðum hraða.
Einnig að gott væri að keyra ekki alltaf í sömu hjólförunum, þannig tækist okkur að þjappa sem best nýlagðan vegakaflann. Ég hef séð að mjög margir fara eftir þessum fyrirmælum, en því miður alls ekki allir. Enginn getur sagt að hann viti ekki að það eru hraðatakmarkanir í gildi enda skilti sem minna okkur á út um allt. Bæði eru börn að leik og svo fer það mjög illa með vegina að keyra eins og viðkomandi eigi lífið að leysa.
Félagsmenn eru að láta stóran hluta af peningunum okkar til að viðhalda veginum og því er það galið að leyfa sér að vanvirða settar reglur og taka áhættu á að skemma það sem verið var að gera.
Eins og við vitum eru það bara ekki við sem búum í Kerhrauninu sem keyrum innan svæðisins, fjölskyldumeðlimir og gestir verða að fá frá okkur leiðbeiningar um hvernig þarf að keyra innan svæðis – það er okkar skylda. Hugsum um umferðaröryggi og leggjum okkur fram um að keyra varlega á nýja slitlaginu, það getur ekki verið að okkur liggi svo mikið á að við hugsum ekki um okkar sameiginlegu hagsmuni.
Ég legg til að við hjálpum hvort öðru, endilega látið mig vita ef ég fer að blússa um svæðið á sama sama hátt vil ég geta leyft mér að banka í bakið á þeim sem fara ekki eftir reglunum.
Að lokum – gleðilegt sumar og ég vona að við eigum eftir að njóta þess besta sem Kerhraunið hefur upp á að bjóða þ.e fegurð, gróður og gott mannlíf.
Fanný Gunnarsdóttir
Grund – nr. 36