Nýjar reglur um sorpflokkun í GOGG – Gildistaka 1.1.2020

.
Eins og fram kom í bréfi sem allir eigendur frístundahúsa fengu nú fyrir jólin frá oddvita Grímsnes- og Grafningshrepps kom fram að nýjar reglur um flokkun og úrgangsmál tóku gildi um áramótin.

Nú verða allir að flokka heimilissorp í fjóra flokka – þ.e. lífrænan úrgang ( sem verður að vera í bréfpokum eða maípokum ), plast, pappír og síðan annar úrgangur. Hver og einn verður svo að fara með sitt sorp á grenndarstöðina við Seyðishóla en stefnt er að því að opna fleiri grenndarstöðvar í hreppnum eftir einhverja mánuði.

Í tengslum við þessar breytingar sendi stjórn Kerhrauns oddvita nokkrar spurningar varðandi þetta nýja fyrirkomulag m.a. hvað gert verði við sorpgáminn hjá okkur. Fram kom í svari oddvita að gámurinn verði að öllum líkindum hjá okkur fram í apríl – en hann á að fara.

Einnig kom fram að það er hægt að leigja flokkunartunnur hjá sveitarfélaginu en það er alfarið á ábyrgð eigenda frístundahúsa að tæma þær. Við erum ekki að greiða sorphirðugjald eins og þeir sem eiga lögheimili í hreppnum, aðeins sorpeyðingargjald. Okkur var vísað á frekari upplýsingar á heimasíðunni gogg.is og mynd af flokkunartunnum sem fylgdi fyrrgreindu bréfi.

Því VERÐUR hvert og eitt okkar að finna lausn sem hentar hverjum og einum og bera alfarið ábyrgð á sínu sorpi en líta má á tímann fram í apríl sem aðlögunartíma.

Í bréfinu kom einnig fram að nú er hafin gjaldtaka fyrir gjaldskyldan úrgang en klippikortið sem fylgdi með gildir sem greiðsla fyrir allt að 4,5 rúmmetum. Ég hvet alla til að kynna sér þessa gjaldtöku vel.

Ég veit að við göngum heilshugar í þetta verk eins og annað sem við tökum okkur fyrir hendur en oddvitinn veit að við óskum eftir því að fá aðgengilega flokkunargáma innan svæðis hjá okkur eða við Samlagsveginn.  Sjáum hvað setur í því máli en ég á ekki von á því fyrst um sinn.

Hér er góður bæklingur frá GogG um flokkun: https://issuu.com/elinesthermagnusdottir/docs/gogg_flokkun_hires.

 

Með kærum kveðjum,
Fanný Gunnarsdóttir, formaður