Fyrsti sunnudagur í aðventu er 29. nóvember nk.

Sunnudaginn 29. nóvember nk. er fyrsti sunnudagur í aðventu og þá kveikjum við á fyrsta kertinu í aðventukransinum en það er kallað Spádómskerti, síðan koma þau hvert af öðru, Betlehemskertið, Hirðakertið og síðast Englakertið.

kerti
Á aðventu og jólum kemur barnið upp í okkur velflestum. Við minnumst jóla heima hjá pabba eða mömmu. Stundum koma upp erfiðar tilfinningar, sem tengjast þessari upprifjun, en Guði sé lof þá koma líka og langoftast upp hlýjar tilfinningar tengdar vináttuböndum, kærleika foreldra og gleði systkina.

Þegar hugurinn leitar til bernskujólanna, þá koma upp í hugann myndir af kertljósum í hverjum stjaka með rauðri jólastjörnu og grænum blöðum. Þannig tengist jólahefðin barnæsku okkar þó við sköpum okkur sjálf okkar eigin hefðir.

Reynum því að njóta lífsins og verum þakklát fyrir það sem við höfum.