Alltaf gaman að koma í Kerhraunið og fara..)) – Vinafundir

Forsíðumyndin gefur ekki rétta mynd af innihaldi fréttarinnar en þetta snýst um hlið, eiga hlið að vera opin eða lokuð? Þá ræðst ákvörðunin af því hvort það er óhætt að hafa það opið, börn sem ekki mega fara út eða eins og í okkar tilfelli rollur sem ekki mega komast inn.

Það er svo skemmtilegt að hitta fólk á förnum vegi, það gerðist í gærkveldi þegar ég var á heimleið úr Kerhrauninu eftir vindasaman en sólríkan dag að ég hitti mann/menn.

Það var mikil bílaumferð í Kerhrauninu yfir daginn, enda verið að keyra í grunninn þar sem blái bústaðurinn stóð einu sinni og skemmtilegt að fylgjast með hvað menn er að framkvæma.

Þegar ég er svo á heimleið sé ég að hliðið á milli hólanna er opið og ákvað að bíða eftir að bílarnir kæmu til baka sem ég og gerði. Eftir smá bið kemur fyrsti bíllinn til baka og þá hafði ég lokað hliðinu þar sem 6-7 rollur voru rétt við girðinguna, ég vind mér út úr bílnum til að ræða málin við bílstjórann og viti menn vandamál nr. 1 skall á, maðurinn talaði ekki íslensku, ekki ensku, bara pólsku og ég bara alveg „stökkk“ að gera mig skiljanlega.

Hljóp ég að hliðinu, opnaði, lokaði, benti á rollurnar og jarmaði, allt kom fyrir ekki maðurinn vildi ekki skilja mig og þá tók við vandmál nr.2

Eftir mína miklu táknmálssýningu tók ég eftir því að blessaðurinn maðurinn varð eldrauður í framan, tók að öskra á mig, lemja bílhurðina og stýrið og alltaf á háa C – inu.

Ég hélt að næst ætlaði hann að hjóla í mig, en þá kom næsti bíll. til allrar lukku var þar íslendingur á ferð og ég hóf aftur að útskýra hvers vegna hliðið þyrfti að vera lokað, þessi maður tók mér vel og einhvern veginn gerði hann pólverjanum það skiljanlegt að hann yrði að loka á eftir sér með mjög áhrifamikilli handahreyfingu.

Vá, þetta var óskemmtileg reynsla en það er svo nauðsynlegt að biðja þá sem vinna fyrir okkur að loka þessu blessaða hliði því nú eru rollur komnar af fjalli og það er fullt af þeim í hólunum.

 

Besti vinur „Ömmu myndar“