Þegar „nýji“ vindpokinn sinnti ekki skyldu sinni, en af hverju?

Helgin 28. – 30. mars 2014 var alveg með eindæmum góð, veðrið skartaði sínu fegursta um allt land og fólk naut þess að hafa það á tilfinningunni að vorið væri komið.

Auðvitað verður að segja allt eins og það er,  þegar farið var í myndavélina á laugardagsmorgni gaf myndin til kynna að í Kerhrauni væri afar sérstök vindátt. Fyrrverandi formaður ákvað að taka málið til rannsóknar enda sérstakur áhugamaður um veður og veðurstöðvar og brá undir sig betri fætinum með tröppu á öxl, skundaði af stað og ætlaði að gefa „nýja“ vindpokanum tiltal enda allt of ungur til að vera með sjálfstæðar vindskoðanir.

image003
Honum brá í brún þegar nær var komið, svona vindstaða er afar óvenjuleg og hreinlega eins og pokagreyjið væri pikkfastur í þessari stöðu. Hann gekk rólega að honum til þess að styggja hann ekki, en engin breyting og það var því ekkert annað hægt að gera en að skella upp tröppunni og dangla aðeins í hann.

Æ, æ það var augljóst að eitthvað var að og við nánari skoðun kom í ljós að hann var fastur og sennilega hafði gleymst að gefa honum að drekka og það virkar enginn vindpoki nema að fá sitt VDF, nú var bara ein staða og það var að gefa hæfilegan skammt af VDF og sjá hvort hann lifnaði ekki við.

Jú, viti menn hann sperrtist allur upp og honum og fyrrverandi formanni samdist um að hann gæfi rétta vindstöðu upp ef hinn vildi sjá til þess að hann fengi reglulega að drekka VDF.  Sanngjörn skipti og nú er hann ánægður.
.

image002