Kallast þetta „ruglingslegur jólaundirbúningur“ hjá mér ?

Nú þegar jólin eru alveg að skella á þá er tilvalið að fara yfir það sem gera þarf og búið er að gera, mér finnst ég persónulega alveg vera að týna sjálfri mér í jólaundirbúningnum sem fellst þó aðallega í því að gera áætlanir sem ekki standast svo að mínu mati……))).

ÉG neyðist kannski til að baka laufabrauð af því að ég var að uppgötva að kökurnar sem ég keypti fyrir margt löngu eru algjörlega ónothæfar að mínu mati svo þurrar að þær bragðast eins og Fréttatíminn, er ekki bara auðveldara að ég bruni í kaupfélagið okkar, ó sorry, næstu búð og verði mér út um aðrar?.

Ég hef samt alltaf lagt miklu vinnu í þetta eins og sjá má að meðfylgjandi mynd……))

laufabrauð

Til að rifja upp ástæðuna fyrir því að best sé að kaupa laufabrauð þá hefur ferlið gengið svona fyrir sig í gegnum tíðina:

Alltaf verið hjá mér, ég alltaf búin að hafa allt tilbúið, brettin, fötin, smjörpappír, eldhúspappír og hnífa og þá hefst biðin eftir þeim sem ætluðu að koma að skera og baka laufabrauð mér til samlætis og biðin er oft ansi löng.  Eftir nokkurra klukkustunda bið kemur einhver og þá var það bara systir mín og segir að hennar lið hafi þurft að gera eitthvað allt annað, já nú man ég hvað það var síðast, setja ljós á leiðin í brunagaddi, þetta geri ég nú alltaf seinnipart aðfangadags.

Ljósin hjá okkur eru komin á sinn stað en við getum ekki kveikt á þeim þar sem garðurinn var rafmagnslaus en þetta verður að komast í lag ekki seinna en á morgun annars fer ég á límingunni. Rafvirkinn lofar að koma í fyrramálið og systir mín segist ætla að koma í rauðabítið kl. 10.00 í fyrramálið ….))) og í augnablikinu man ég ekki hvað við ætluðum að fara að gera  en ég breyti þá bara áætlunum hjá mér og fer að gera eitthvað allt annað.

Þegar ég er farin að finna fyrir stressi þá langar mig mest að fara með manninum og kisanum mínum honum Ása í ferðalag og slaka bara á og vera ekkert að hafa áhyggjur af hinu og þessu sem í rauninni ætti ekki að þurfa að hafa áhyggur af.

kisi
Annars eru þetta ekki eintómt stress því í gær var samfelld veisla. Fyrst morgunmatur í vinnunni,  þá mini-jólahlaðborð  í hádeginu í Þrastalundi með matarklúbbi Kerhraunskvenna og ég skil reyndar ekki af hverju þetta var kallað mini-jólahlaðborð því við fórum allar heim eins og úttroðnar gæsir, þvílíkt mini-jólahlaðborð…)))

hlaðborð
Í gærkveldi fór ég svo í fínt konuboð þar sem húsmóðirin varð að kenna okkur að neyta veitinganna því þær voru svo framandi. Hollenskar vöfflur sem ekki mátti bíta í fyrr en þær voru búnar að standa hæfilega lengi ofan á kaffibollunum, ítalskar grjótkökur sem varð að dýfa í kaffi áður en bitið var í þær og svo alls konar annað góðgæti.

Rúsínan í pylsuendanum var svo að okkur var boðið að kaupa jólapeysur sem frúin á heimilinu er umboðsmaður fyrir og satt best að segja gekk henni illa að selja okkur, dæmi nú hver fyrir sig. http://www.tipsyelves.com/funny-christmas-sweaters

Í morgun var heljarinnar veisla í líkamsræktarstöðinni minni og eftir slökunarspinning við kertaljós og einhverja exotiska leikfimi  var sest niður með kaffi, konfekt og ávexti, afar huggulegur líkamsræktartími, meira að segja var dreift konfekti í miðjum tíma meðan við liðum um á hjólunum um draumheima. Ég segi bara ekki annað en að það er eins gott að ég á Herbalife milli þess sem ég nýt alls sem desembernægtarborðið hefur upp á að bjóða. Annars kæmist ég ekki fyrir í stofusófanum innan um fjölskylduna á aðfangadagskvöld.

Hvað er ég annars að kvarta, hef allt til alls og lífið er yndislegt á milli þess sem ég stressa mig upp t.d. út af jólaundirbúiningi, nú er kominn tími til að fá sér jólaglögg og piparköku sem allt er keypt í Ikea í einni jólainnkaupsferðinni. Biðst velvirðingar á þessu bulli mínu og vonandi verður þetta ykkur víti til varnaðar.

Góða helgi kæru Kerhraunarar.