Jólin 2018 – jólakveðjur

Kæru Kerhraunarar. Senn koma jólin og því við hæfi að staldra við og hugsa um hvað hefur gerst síðan síðustu jól voru haldin, hjá mörgum hefur lífið gengið sinn vanagang en hjá öðrum hefur mikið verið í gangi svo ekki sé nú minnst á allt það sem er að gerast í  þjóðfélaginu. Þegar talað er um að eitthvað hafi gerst þá getur það verið bæði jákvætt og neikvætt og við Kerhraunarar erum ekki þar undanskilin, hjá okkur gerast gleðihlutir t.d. eignust við barnabörn og gleðjumst þegar börnunum okkar gengur vel, sum okkar eignuðust sumarhús á árinu og jafnvel giftu sig svo öllu þessu ber að fagna. Sum okkar gengu í gegnum veikindi og þeim ber að senda hugheilar batakveðjur, ástvinavinamissir er alltaf þungbær en góðar minningar lina alltaf sársaukann og svo eru það litlu dýrin sem gleðja daglegt líf, þau kveðja þennan heim og er sárt saknað.

Eitt sem er sérstakt árið 2018 var veðráttan, öll getum við verið sammála um þá staðreynd og það er óhætt að fullyrða að fá okkar muna eftir svona desembermánuði. Þegar 21. desember sem er styðsti dagur ársins rann upp þá var ljóst að hann yrði góður og meðfylgjandi mynd sem tekin var úr myndavél okkar Kerhraunara sýnir það svo sannarlega.

Í hugum flestra eru jólin tími friðar, gleði og góðra samskipta. Á jólum eiga allir að vera glaðir og hamingjusamir, við sendum kveðjur, gefum gjafir og allsstaðar í kringum okkur heyrum við boðskap um gleði og frið.

Jólin gefa okkur tækifæri til að staldra við, skoða stöðu okkar, endurmeta og leggja rækt við það sem er okkur kærast. Munum að það að gefa gjöf með kærleiksríku viðmóti, brosi á förnum vegi, heimsókn eða símhringingu er oft stærra en margur harður pakkinn, því það sem við gerum er oft sýnilegra og miklu áhrifaríkara en það sem við segjum.

Kæru Kerhraunarar,  innilegar jólakveðjur til ykkar allra. Vonandi að jólin verði ykkur gleðileg í faðmi vina og vandamanna. Látum jólaljósin lýsa okkur inn í framtíðina, og tökum fagnandi á móti nýju ári með öllu sem það hefur upp á að bjóða.