Jólakveðja til Kerhraunara 2017

Nú eru aðeins nokkrir dagar í að jólahátíðin hefjist og jólaundirbúningurinn er á lokametrunum hjá flestum.
Jólin er skemmtilegur tími en undirbúningurinn og umstangið í kringum jólin verður oft allt of yfirgengilegur. Við megum ekki gleyma því að njóta jólaundirbúningsins og ekki stressa okkur of mikið t.d. á umferðinni, hreingerningum, bakstri, jólaskreytingum og kaupum á jólagjöfum. Flestir Íslendingar eiga nóg í sig og á og nú er tími fyrir breytingar, látum gott af okkur leiða til þeirra sem minna mega sín og kvíða oft þessum tíma.

Það er nú því miður lítið í jólaundirbúningnum sem stuðlar að sálarfrið því það er endalaust verið að herja á okkur að gera eitthvað fyrir jólin og kaupa meira og meira. Jólin koma alveg þótt það séu nokkrir rykmaurar á gólfinu og miðað við magnið af auglýsingabæklingum sem flæða inn um lúguna er eins við eigum helst öll að eiga heiminn. En það sem flestir eru að bjóða okkur til sölu um jólin eru dauðir hlutir og því meira sem maður á af þeim því minni er sálarfriðurinn.

Kúplum okkur út úr jólastressinu og gerum eitthvað skemmtilegt sem ekki þarf að kosta mikið, förum út í göngu og drögum að okkur andann og lífið. Finnum að við erum á lífi en erum ekki þrælar jólastressins. Hvert góðverk sem við gerum fyllir sál okkar friði.

Tökum einhvern sem okkur þykir vænt um, með í þessa ferð og hún verður eftirminnilegri en dýrasta jólagjöf viðkomandi.

Eigið gleðileg jól kæru Kerhraunarar og njótið hátíðarinnnar í faðmi fjölskyldunnar.