GOGG – fasteignagjöld – heimagisting

Grímsnes- og Grafningshreppi hefur borist fjöldi fyrirspurna frá einstaklingum sem eiga fasteignir innan sveitarfélagsins um tilhögun álagningar fasteignaskatts á árinu 2017 en fasteignareigendum sem fengið hafa leyfi til heimagistingar hefur verið gert að greiða sama skatthlutfall fasteignarskatts og fasteignareigendum almenns atvinnuhúsnæðis innan sveitarfélagsins á grundvelli laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga vegna þess tímabils sem þeir hyggjast nýta fasteignir sínar í útleigu fyrir ferðaþjónustu.

Með lögum nr. 67/2016 sem tóku gildi 1. janúar 2017 var gerð breyting á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald að því er varða útleigu fasteigna til ferðamanna. Í lögunum er skilgreind svokölluð heimagisting sem er ætlað að taka til þeirra tilvika þegar einstaklingar leigja út fasteignir í skammtímaleigu á ári hverju á tilteknu tímabili. Virðist ætlun löggjafans með lagabreytingunni hafa verið að taka af tvímæli um að eigendur fasteigna sem bjóða upp á heimagistingu beri að greiða sama skatthlutfall fasteignaskatts og eigendum hefðbundins íbúðarhúsnæðis á grundvelli laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Grímsnes- og Grafningshreppi ber að leggja fasteignaskatt á fasteignir innan sveitarfélagsins á grundvelli laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Ekki var gerð breyting á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga til samræmis við breytingar á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í hinum fyrrnefndu lögum er sérstaklega tekið fram að greiða skuli sama skatthlutfall vegna fasteigna sem nýttar eru fyrir ferðaþjónustu og vegna annars almenns atvinnuhúsnæðis. Grímsnes- og Grafningshreppur telur ótækt að víkja frá skýru orðalagi laga nr. 4/1995.

Fasteignareigendur innan sveitarfélagsins sem hafa skráð fasteignir sínar hjá sýslumanni vegna heimagistingar verður því gert að greiða sama skatthlutfall fasteignaskatts og öðrum eigendum almenns atvinnuhúsnæði vegna þess tímabils sem þeir hyggjast leigja út eignir sínar til samræmis við skýr fyrirmæli laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Raunveruleg nýting fasteigna ræður skattlagningu fasteigna. Ef einstaklingar nýta ekki fasteignir sínar til útleigu fyrir ferðaþjónustu þrátt fyrir að vera skráðir fyrir heimagistingu hjá sýslumanni eru þeir vinsamlegast beðnir um að upplýsa sveitarfélagið þar um og leggja fram gögn því til stuðnings.

Fyrirspurnir og upplýsingar má senda á netfangið gogg@gogg.is. Upplýsingar verða einnig veittar á skrifstofu sveitarfélagsins að Félagsheimilinu Borg eða í gegnum síma 480-5500.