Fyrsti vetrardagur var í dag laugardaginn 27. október 2018

Í dag var fyrsti vetrardagur og um leið fyrsti dagur vetrarmánaðarins sem nefnist Gormánaðar. Fyrsti vetrardagur er einnig nefndur vetrarkoma en veðurguðinn nennti ekki að gera neitt í dag og því var þessi dagur afar fallegur alveg frá morgni til kvöld þó kaldur væri. Þennan dag vakna oft margar hugsanir og spurningar um komandi mánuði og þá aðallega hvernig veðráttan verði því þó flestir kjósi snjó þá vill fólk síður mikla umhleypinga og eða ófærð.

Stjórn félagsins kom saman í dag til að fjalla akkúrat um snjómokstur þessa vetrar og leggja línur fyrir framkvæmdaáætlun næsta starfsárs. Ofarlega á lista er auðvitað klæðning á „samlagsveginn“ og efri hluta brekkunnar út af svæðinu ásamt áframhaldandi uppbyggingu vega á svæðinu en fyrst og fremst felast störf stjórnar í því að gera eins vel og við getum, standa vörð um peninga félagsins og gera allt rétt samkvæmt gildandi skipulagi.

Það er og á að vera markmið okkar allra að vinna áfram að því að gera svæðið okkar enn fallegra enda fer orð af því hversu vel er staðið að öllu og umtalað hversu okkur er umhugað um að láta allt líta vel út.

Í tilefni dagsins eru eftirfarandi myndir sönnun þess hversu Kerhraun er fallegt svæði enda á mikill uppleið.