1. stjórnarfundargerð 28. apríl 2024

Fundurinn haldinn á Grund í Kerhrauni hjá Herði Gunnarssyni og hófst kl. 11:00.

Mætt:  Elín Guðjónsdóttir, Guðrún Njálsdóttir,  Hörður Gunnarsson, Óskar Georg Jónsson, Svava Tyrfingsdóttir.

Dagskrá

  1. Stjórn skiptir með sér verkum 
  2. Farið yfir framkvæmdaáætlun ársins 
  3. Breytt skráning heimilisfestis og prókúruhafa 
  4. Ganga frá tilkynningu til GogG um nýja stjórn og til UTU 
  5. Náman – grenndarkynning og viðbrögð. 
  6. Önnur mál: 

  1. Stjórn skipti með sér verkum og voru verkaskipti eftirfarandi:

Gjaldkeri Guðrún Njálsdóttir. Ritari Hörður Gunnarsson.

Rætt um umsjónarmenn með G&T degi sem og með verslunarmannahelginni og verða Elín Guðjónsdóttir og Svava Tyrfingsdóttir þar í aðalhlutverki. 

G&T dagur verður haldinn í byrjun júní eða líklega laugardaginn 8. júní.  Ákveðið að kaupa amk 50 tré til gróðursetningar á sameiginlegum svæðum en verð þeirra er 4,100 kr stk í dag.  Ákveðið að bjóða félagsmönnum uppá að kaupa sveppamassa (mold) frá Georg á Flúðum.  

Óskar Georg Jónsson athugar með ásigkomulag bekkja, málningu á skiltisstólpa.  Svava Tyrfingsdóttir sér um kaup á veitingum og grillað verður við gám félagsins.  Elín Guðjónsdóttir kaupir blóm og sér um að þeim verði plantað. 

Á laugardegi verslunarmannahelgarinnar verður að venju boðið uppá leiki fyrir börn.  Ákveðið að ræða við Maren Lind Másdóttir um skipulag leikja og Elfar J. Eiríksson vegna umsjón varðeldar um kvöldið. 

2. Framkvæmdaáætlun 2024-2025. 

Farið var yfir framkvæmdaáætlun ársins sem samþykkt var á aðalfundi félagsins og ákveðið að semja við Jóhannes Guðmundsson á Klausturhólum um kaup á rauðri möl.  Einnig verði rætt við Hall Ólafsson hjá Faxaverki um fluting á grárri möl, jöfnun, völtun, samhæfingu á verkstað ofl.  Framkvæmd verksins f.h. stjórnar er í höndum Guðrúnar Njálsdóttur. 

Ákveðið var að fá Guðfinn Traustason og Hjalta Jóhannesson til að ganga girðingar og laga það sem aflaga hefur farið frá síðasta vori. 

Stjórn ákvað að bíða með lagningu göngustíga fram á haust eða þegar ljóst er hvernig framkvæmdaáætlun hefur staðist fjárhagslega í stærstu verkefnunum. 

3. Breytt skráning heimilisfestis og prókúruhafa:  

Breytingar á stjórn hafa verið uppfærðar hjá RSK.  Eftir er að uppfæra „raunverulegan eiganda“ sem er formaður hverju sinni.  Verður uppfært. 

4. Ganga frá tilkynningu til GogG um nýja stjórn og til UTU:  

Eftir er að tilkynna breytingu á stjórn til sveitarfélagsins sem og umhverfis og tæknisviðs.  Verður uppfært. 

5. Náman í Seyðishólum.  

Stjórn ákvað að taka þátt með öðrum félögum á svæðinu sem og Valborgu Snævar í því að fá lögmann til að kanna réttarstöðu félaganna komi til þess að námunni verði veitt starfsleyfi sem heimili allt að 500 þúsund m3 efnistöku úr námunni á næstu 15 árum eða sem jafngildir því magni sem tekið hefur verið úr námunni s.l. 70 ár eða frá upphafi.  Reynt verði með öllum tiltækum ráðum að hnekkja úrskurði sveitarstjórnar verði hún ekki okkur í hag sem litlar líkur eru þó að af því verði.   

Einnig mun stjórnin ítreka við félagsmenn okkar að þeir sendi inn mótmæli í þeirri grenndarkynningu sem félagar eiga aðild að og lýkur 8. maí n.k. Þar verði aukinni efnistöku mótmælt en félagsmenn sætti sig við óbreytta starfsemi námunnar sbr. Það sem félagsmenn lögðu til í fyrri grenndarkynningu. 

6. Önnur mál:  

Óskar Georg Jónsson lætur útbúa skilti til að vekja athygli á miklum halla í bröttustu brekkunni innan svæðis og einnig skilti á aukahliðið þar sem segir að bannað sé að leggja fyrir hliðið.  Með því að setja skiltið í bröttu brekkunni mun vera vakin athygli vegfarenda á miklum halla sem og að félagið verður ekki bótaskylt komi til óhappa á þessum vegkafla. 

Rætt var um að draga úr og fækka tilkynningum á heimasíðunni frá því sem verið hefur.  Lögð yrði áfram megin áhersla á að setja á innranet þau skilaboð sem birta þyrfti félagsmönnum. 

Ákveðið að festa kaup á þriðju myndavélinni sem hefði m.a. sýn á vindpoka sem ætti nauðsynlega að vera í mynd. 

Gert í Reykjavík 29.04.24.  Hörður Gunnarsson.