Sannar sögur um ferðalanga í Kerhrauni

Þegar maður dvelur hér orðið lengur en vanalega þá ósjálfrátt vakir maður og sefur yfir því sem er að gerast á svæðinu og í vikunni sem er að líða þá gerðist það eitt kvöldið þegar við Lára, Viðar og ég voru að fá okkur kaffisopa að við sjáum að einhver bíll með krana kemur inn á svæðið stoppar við Kerbúðina og við sjáum að þarna eru á fleiri á ferðinni.

Fyrsta sem okkur datt í hug var „WOW, Tóta er að láta fjárlægja Kerbúðina og ætlar að setja upp stærri verlsun í staðinn“, en fannst samt það ekki geta verið og ákváðum því að fara rúnt og skoða því ekki vildum við missa Kerbúðina ef Tóta stæði ekki á bak við þetta. Þegar við nálgumst sjáum við að það er rauður bíll útaf veginum og alveg við að velta.

Birgir á B svæðinu var þarna en stúlkurnar tvær sem voru á þessum bíl höfðu sem sé keyrt út af veginum. Í stressinu hlaupa þær á stuttbuxunum til Bigga sem hélt kannski að þær væru að koma til hans og þá voru þær að biðja hann um hjálp. Þar sem hann er skynsamur maður sá hann strax að hann gæti lent í því að bíllinn ylti þar sem þær þorðu hvorug að vera inn í bílnum. Sagði hann þeim það að þar sem þetta væri bílaleigubíll skyldi hann hringja á dráttarbíl fyrir þær. Þarna var sem sé dráttabíllinn mættur með tvo menn sem náðu bílnum upp á veg óskemmdum.

Meðan á þessu stóð tók ég þær tali og spurði “ hvor ykkar keyrði?“, þá svar önnur þeirra „hún keyrði“, NEI sagði þá hin. Ég spurði þá „vitið þið ekki hvor ykkar keyrði?“ og þá segir sú sem ég spurði fyrst „það var ég“ og hin leit hana illu auga fyrir að segja ekki satt frá.

Eftir að hafa játið fór málbeinið á stað og hún sagði mér að þær væru franskar og væru í húsi nr. 40. Þær væru nýkomnar til landsins og hún tjáði mér það að hún hefði fallið fjórum sinnum á bílprófinu en loksins náð í fimmta skiptið og hjúkk þá gat hún farið til Íslands og keyrt þar.

Alveg bráðskondið en mikið fjandi brá henni þegar dráttarbíllinn rukkaði hana. Varð náföl og keyrði á ógnarhraða upp í bústað til að jafna sig og kannski fór hún að æfa sig á tölvunni í „car simulator“ við erfiðar aðstæður.