Það er bæði spenna og tilhlökkun sem fer um mann þegar páskarnir eru að koma og heilmargir frídagar í uppsiglingu. Veðrið sem hefur verið svo gott undanfarið er komið í þann gýr sem kallast „páskahret“ og margir mjög svekktir yfir þessum breytingum. Besta ráðið er að reyna að láta þetta ekki hafa áhrif á geðið og halda planinu eins lengi og sér út úr augum þó alltaf með skynsemina að leiðarljósi.
Margir hafa upplifað marga páska og þeir elstu muna eftir hnausþykkum grjónagraut sem borðaður var bæði á Skírdagsmorgun og Páskadagsmorgun og var grauturinn kenndur við dagana og kallaður skírdagsgrautur og páskagrautur og sagt var um Hvítárvalla-Skottu að hún hafi þvegið sér upp úr páskagrautnum en til hvers er ekki alveg vitað. Sagt er að á föstudaginn langa hafi gamlir menn hýtt börn sín fyrir allar þær ávirðingar sem þeim hafði orðið á um föstuna, en blökuðu þó ekki hendi þess á milli en auðvitað gerist svona bara í þjóðsögum.
Á páskadagsmorguninn verða þau venjubrigði að sólin kvikar til nokkur augnablik í því hún kemur upp og er þetta kallað „sólardans“.
Páskarnir eru sá tími sem fólk slappar af og gleður hvort annað, ekki má gleyma páskaeggjunum sem margir bíða eftir að geta byrjað á.