Lögheimilsmál – eru breytingar í náinni framtíð?

Umtalsverður fjöldi fólks er hvergi skráður með lögheimili eða tilgreint heimilisfang og fasta búsetu hér á landi. Hjá Þjóðskrá eru þessir einstaklingar skráðir „óstaðsettir í hús“ þar sem ekki er vitað hvar þeir búa þótt þeir séu skráðir í þjóðskrá.

Nýjustu tölur Þjóðskrár frá í október síðastliðnum sýna að þá voru 1.447 einstaklingar skráðir óstaðsettir í hús. Þetta eru 1.207 karlar og 225 konur og eru 15 börn í þessum hópi.

Þessar upplýsingar komu fram á ráðstefnu Reykjavíkurakademíunnar og Reykjavíkurborgar sl. föstudag um ólöglegt húsnæði og svokallaða óleyfisbúsetu í atvinnuhúsnæði, sem er vaxandi vandamál. Einnig kom fram í máli Ómars Harðarsonar, fagstjóra hjá Hagstofu Íslands, að röng skráning til heimilis sé almennt vandamál hér á landi og hafi smám saman farið vaxandi og ætla megi að 8% til 12% fólks búi ekki þar sem það er skráð.

Gildandi lög kveða á um að lögheimili manns sé sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu og þá eingöngu í íbúðarhúsnæði en ekki í til að mynda sumarbústað, atvinnuhúsnæði, gistihúsi, vinnubúðum og svo mætti áfram telja.

Þyrí Steingrímsdóttir, hæstaréttarlögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, fjallaði ítarlega um þessi mál og um lagagrundvöll fyrir búsetu og skráningu á ráðstefnunni en hún á sæti í starfshópi sem er um þessar mundir að endurskoða lög um lögheimili og lög um tilkynningu aðsetursskipta. Er markmiðið að færa þessa tvo lagabálka til nútímahorfs. Þyrí bendir á að einstaklingar öðlast margvísleg réttindi og skyldur þar sem þeir eru skráðir með lögheimili, s.s. margvíslega þjónustu sveitarfélags, aðgang að menntun, heilsugæslu, sorphirðu og svo framvegis en dvalarstaðurinn einn og sér veitir ekki réttindi í sveitarfélaginu þótt menn búi í t.d. sumarhúsi í einhverri frístundabyggð eins og hefur færst í vöxt eða í óskráðu atvinnuhúsnæði.

Mörg sveitarfélög hafa lýst sig mótfallin því að fólk geti skráð sig til heimilis í frístundabyggðum þar sem
það myndi færa miklar skyldur á herðar sveitarfélögum um að veita því margvíslega þjónustu, sem þau sum hver hafi vart bolmagn til. Kom fram í máli Þyríar að starfshópurinn væri með margvíslegar breytingar í skoðun með það að markmiði að færa lagaákvæðin til nútímahorfs „og mögulega opna á að það megi skrá sig til dæmis í frístundabyggð eða í atvinnuhúsnæði“, sagði hún.

Hefur m.a. verið skoðað með Sambandi íslenskra sveitarfélaga hvort ákjósanlegt væri að færa meira vald til sveitarfélaganna sjálfra um að ákveða hvort t.d. íbúðir í atvinnuhúsnæði sem uppfylla allar kröfur verði skráðar sem íbúðarhúsnæði, enda fara sveitarfélögin með skipulagsvaldið í hverju byggðarlagi.

Þegar vinna við smíði nýrrar löggjafar var sett af stað í framhaldi af þingsályktun Alþingis var sérstaklega
tiltekið að þarft væri að gera þá breytingu að heimila hjónum að vera með lögheimili hvort í sínu lagi.
Margvíslegar aðrar breytingar eru til athugunar og kom fram í máli Þyríar að til skoðunar væri að sundurgreina
meira lögheimilisskráningu einstaklinga sem eru t.d. skráðir í fjölbýlishúsum. Lögheimilið verði ekki eingöngu götunúmer viðkomandi húss heldur skráð á tiltekna íbúð í hverju húsi. Er markmiðið að þessi breyting gæti gengið í gildi 1. janúar 2019