Hvað getum við auðveldalega gert til að fá meira af birki í Kerhraunið

.
Á góðum haustdegi er gott að fara í göngutúr í Heiðmörkina eða í Öskjuhlíðina og nota tækifærið til þess að safna birkifræi. Auðveldara en þú heldur.

Söfnun birkifræs

Best er að safna birkifræi seint í september eða í október, t.d. skömmu eftir lauffall þegar gott er að sjá fræreklana. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að safna fræi frameftir vetri, en líkur á að stormar feyki því af trjánum aukast eftir því sem á líður.

Oft er mest fræ á tiltölulega ungum trjám. Það er góð regla að safna eingöngu af kröftugum og fallega vöxnum trjám og safna af nokkuð mörgum trjám á stóru svæði. Ef safnað er af aðeins einu tré verða trén sem upp af fræinu vaxa systkini og þegar þau síðan fara að bera fræ verður æxlun milli þeirra, af því að frjóduft berst fyrst og fremst milli trjáa sem vaxa í nágrenni hvert við annað. Þekkt er að tré sem til eru orðin við slíka skyldleikarækt eru þróttminni en afkomendur óskyldra foreldra.

Við söfnun er gott að hengja poka eða fötu framan á sig með bandi um hálsinn, því þá er hægt að beita báðum höndunum við tínsluna. Best er að tína reklana í heilu lagi. Reklar sem eru grænir og vatnsmiklir þurfa eftirþroskun í 1­2 vikur til þess að fræið harðni og losni úr þeim. Þá er gott að breiða úr reklunum á pappír við stofuhita. Fræ sem á að geyma til lengri tíma þarf einnig að þurrka á þennan hátt. Best er að geyma fræið í bréfpoka eða taupoka á köldum og þurrum stað.

Hvenær er best að sá?

Auðveldast er að sá strax að hausti, jafnvel í sömu ferð og safnað er, því þá þarf ekki að þurrka og geyma fræið. Hvað varðar sáningartímann skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli hvenær sáð er. Úti í náttúrunni er dreifingartíminn að jafnaði frá því í september og allnokkuð fram á næsta vor. Haustsáning hefur gefið góða raun og einnig ef sáð er mjög snemma að vori. Hins vegar heldur fræið spírunarhæfni í einhver ár, þannig að ef sáð er að hausti mun hluti fræsins spíra næsta vor, en líklegt er að einhver fræ spíri ekki fyrr en þarnæsta vor eða jafnvel enn seinna. Þetta er afar heppilegt vegna þess að vaxtarskilyrðin eru misjöfn frá ári til árs og þó að fræplönturnar misfarist eitt sumarið eru líkur til að einhverjar komist á legg síðar. Rétt er að benda á að birkiplöntur eru afar smáar fyrstu árin og því er þess ekki að vænta að árangur sjáist fyrr en eftir nokkur ár.

Hvar á að sá?

Þó margir staðir henti til birkisáningar er ekki hægt að sá hvar sem er. Velja þarf staði þar sem fræin geta spírað og vaxtarskilyrði eru heppileg fyrir fræplönturnar. Búast má við bestum árangri á hálfgrónu landi og þar sem gróðurþekjan er ekki of þétt, t.d. á hálfgrónum melum og hraunum og landgræðslusvæðum þar sem gróður er gisinn.

Á ógrónu eða mjög rýru landi er spírun fræsins oft ágæt, en þar má búast við verulegum afföllum á fræplöntum, einkum vegna frosthreyfinga veturinn eftir spírun. Dreifing áburðar með birkifræinu og jafnvel dálítils grasfræs getur þar hjálpað, því að hvort tveggja dregur úr frostlyftingu.

Þar sem land er algróið og gróðurlagið þykkt, t.d. í graslendi eða mosaþembum, þýðir lítið að sá birkifræi nema gerðar séu viðeigandi ráðstafanir, því fræið kemst þar ekki í snertingu við jarðveginn og spírar illa. Einnig þarf að huga að því að birkifræ er afar smátt með litla forðanæringu, og því eiga birkiplöntur til að byrja með afar örðugt uppdráttar í samkeppni við þéttan gróður. Á grónu landi má þó skapa skilyrði fyrir fræið með því að rjúfa gróðurlagið, t.d. rista svörðinn ofan af eða reyta mosa af blettum fyrir sáningu. Einnig getur verið gott að sá þar sem gróðurþekjan hefur rofnað af öðrum ástæðum, t.d. vegna beitar eða annars rasks.

Hvernig á að sá?

Fræinu er dreift á yfirborðið en alls ekki fellt niður. Til að fræið nái að spíra þarf það góða snertingu við jarðveginn. Því er gott að þjappa með fæti ofan á fræið eftir sáningu.

Fræmagn þarf ekki að vera mikið. Birkifræ eru afar lítil og létt og því mörg fræ í hverju grammi. Best er að dreifa fræinu á marga litla bletti, frekar en að setja mikið magn á hvern stað. Ef ekki er hægt að sá í allt það svæði sem ætlunin er að koma birki í er um að gera að haga sáningu þannig að birkið geti síðan sáð sér út, en birki er einmitt mjög duglegur landnemi þar sem aðstæður til nýliðunar eru fyrir hendi.

Söfnun og sáning birkifræs er góð ástæða til að komast út og njóta fallegra haustdaga, kynnast landinu og bæta ásýnd þess í leiðinni.