Hugrenningar og væntingar um nýja árið rétt áður en sól tekur að hækka á lofti

Nú þegar nýtt ár er gengið í garð þá er alveg hægt að segja að venjur hversdagsins séu aftur mættar á staðinn og dagar ofáts og óhófs séu að baki allavega næstu 12 mánuðina. Það má gera ráð fyrir að samviskubitið nagi ansi marga um þessar mundir eftir of marga konfektmola og smákökur liðinna daga og að einhver skref hafi verið tekin afturábak yfir hátíðirnar og kannki erum við að velta því fyrir okkur hvernig megi koma í veg fyrir að árangur síðustu mánaða sturtist ofan í klósettið. Þetta er ekki það skemmtilegasta að takast á við, ó nei.

En lífið er miklu skemmtilegra en svo að við séum að eyða orkunni í að velta okkur upp úr ofáti, við byrjum bara frá og með deginum í dag að fara í gamla góða planið því þetta er bara eitt af því sem við þurfum að glíma við eftir hver jól og áramót.

 

 

Við skulum ekki gleyma því að nú fer sólin að hækka á lofti, því fylgir alltaf mikil tilhlökkun að senn komi vorið og síðan sumarið og aftur verði hægt að fara í Kerhraunið góða og hitta skemmtilegt fólk.

Það styttist líka í aðalfundinn okkar sem verður haldinn í mars, þar leggjum við grunninn að framkvæmdum þessa árs enda skulum við ekki gleyma því að þetta er sá vettvangur þar sem við höfum til að koma á framfæri skoðunum okkar og vera þátttakendur í uppbyggingu okkar fallega svæðis.