Formleg opnun hitaveitunnar – 14:00 – 15:00

Hinn langþráði dagur 18. september var runninn upp, hitaveita í Kerhrauni var að verða að veruleika og framtíð Kerhraunsins því eins björt og hugsast getur. Formleg dagskrá var auglýst kl. 14:00, því voru síðustu klukkutímarnir ansi erilsamir bæði hjá Sigurði og líka hjá stjórnarmönnum, allir lögðu hart að sér að gera þennan dag sem eftirminnilegastan fyrir Kerhraunara.  Sigurður setti dæluna í gang um kl. 13:00 en áður hafði hann verið búinn að fylla í rörin, tók það dæluna rúman hálftíma að losa sig við kalda vatnið og það var æðislegt að sjá heita vatnið spýtast út.

Hans, Kjartan og Guðrún á C svæðinu voru þau fyrstu sem fengu heita vatnið inn í sín hús, allir brostu því út að eyrum af spenningi og þegar líða tók á daginn kom heitt vatn líka inn á A svæði.

Ef litið er til baka og hugsað um hitaveitu þá er langt síðan talað var um að fá Orkuveituna til okkar, en það er EKKI langt síðan ákveðið var að tala við Sigurð á Hæðarenda um að selja okkur heitt vatn.  Þetta er heill meðgöngutími eða 9 mánuðir og geri aðrir betur enda Sigurður manna bestur að þekkja 9 mánaða meðgöngutíma með sínar fallegu 5 stelpur. Alveg frá upphafi þegar þeir félagar í hitaveitunefndinni fóru á fund með Sigurði með þann draum að af þessu gæti orðið þá hefur allt þetta ferli verið hið ánægjulegasta, allt frá þvíi að standa í samningagerð, leita tilboða, sitja fundi, senda tölvupósta, fylgjast með framkvæmdum, framkvæma sjálfur, undirbúa lokahófið og síðast en ekki síst að sjá að heitt vatn var komið í leiðslurnar.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að þetta eru tímamót og allir þeir Kerhraunarar sem skráðu sig í upphafi eiga þakkir skilið að gera þennan draum að veruleika og riðja veginn fyrir aðra um ókomna framtíð.

Formleg dagskrá hófst kl. 14:00 með því að Hans Einarsson sagði „Nokkur velvalin orð„, síðan bað hann Sigurð um að koma og taka á móti smá þakklætisvotti frá félagsmönnum og skrúfa síðan formlega frá heita vatninu sem hann og gerði,  skálað var í Captain Morgan sem var í boði stjórnar og heitu vatni í boði Sigurður og með þessum gjörningi  var heita vatnið formlega komið í Kerhraunið.

Að lokinni dagskrá var boðið upp á kaffi og vöfflur og óhætt að fullyrða að þessi dagur hafi verið hinn ánægjulegasti í alla staði þrátt fyrir að honum væri hvergi nærri lokið hjá þeim sem tóku inn vatnið enda í nógu að snúast að fylgjast með hitastigi og vindgangi  í rörunum og ekki varð nú sælan minni þegar hitna fór í húsunum.

 

.
Föngulegur hópur Kerhraunara fagnar hitaveitunni
ásamt Sigurði Jónssyni og fjölskyldu
.

Hans Einarsson flutti ræðu dagsins

Sigurður Jónsson skrúfar frá heita vatninu

Kerhraunarar færðu Sigurði gjöf í fljótandi formi

Captain Morgan + heitt vatn = Skál

Sjarmör dagsins

Til hamingju KERHRAUNARAR með heita vatnið