Sumardagurinn fyrsti er í dag, 25. apríl 2013 – Gleðilegt sumar Kerhraunarar

Sumardagurinn fyrsti, er fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af 6 sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu frá 19 .- 25. apríl. Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta.

.

.

 

Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, sem sé hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

Hvað er átt við með góðu sumri ? Fyrir okkur Frónbúa er það ætíð jafn spennandi að velta veðrinu fyrir okkur, fáar þjóðir eru jafn uppteknar af umræðunni þó því verði ekki haldið fram að veðrið sé mýmörgum öðrum þjóðum hugleikið. Auðvitað, við eigum allt okkar undir veðrinu þó tímarnir hafi vissulega breyst en aldrei meira en svo að gróður jarðar er ávallt í sömu þörf fyrir að í veðrahvolfinu verði til kraftar honum þóknanlegur. Alltént hefur matið breyst stórum þegar um gott sumar er talað þó bændur, íslenskir sem aðrir, líti til sömu þátta og fyrr, sbr. ofan, að einhverju leyti. Við hin viljum sjá sem mest af blessaðri sólinni og hlýja vinda kyssa vanga því sjaldan býðst nú blessað lognið.

Ýmislegt bendir til að athafnir mannsins séu teknar að hafa merkjanleg áhrif á veðurfarið á jörðinni, talað er um hækkun hitastigs og til skamms tíma hafa áhrifin fyrir okkur á Austurlandi einkum komið fram í hlýrri vetrum meðan sumrin hafa verið svöl og rök. Megi breyting verða þar á, þ. e. að sunnanvindar blási glaðar að sumri og síður að vetri.

En alla vega, sumarið er komið og nú er um að gera að njóta þess þar sem sunnanþeyr strýkur vanga, langar bjartar nætur gefa tilefni til vöku í góðum hópi og glaðlegur fuglasöngur nærir sálina.

Gleðilegt sumar kæru Kerhraunaar.