Enn og aftur er komin aðventa en hvað er aðventa og hvað gerum við á aðventunni

Orðið aðventa er dregið af latnesku orðunum „Adventus Domini“ og hefst hún á 4. sunnudegi fyrir jóladag. Þessi árstími var lengi vel og er reyndar víða enn, kallaður jólafasta. Hér fyrr á öldum mátti þá ekki borða hvaða mat sem var, til dæmis ekki kjöt. En hvað gerum við nú til dags á aðventunni? Í íslensku nútímaþjóðfélagi eru það fáir sem að fasta á aðventunni. Sennilega er það einmitt hið gagnstæða að aðventan snýst orðið um jólaboð og fagnaði, jólahlaðborð, jólaböll og jólagleði, allt með tilheyrandi kræsingum og gnægtum af mat og drykkjum. Allir vilja halda flott jólaboð og ekkert er til sparað.

Þessi boð og veislur eru svo sannarlega mjög skemmtilegar og gott fyrir alla að lyfta sér upp og hitta skemmtilegt fólk. En það sem að verra er að núorðið er það orðið svo að boðin og veislurnar eru orðnar svo margar að oft þarf að skipta upp kvöldunum til að rjúka á milli staða, því að ekki má missa af eða sleppa einhverri þeirra. Svona fara helgarnar á aðventunni hjá mörgum.
.

.
Margur er oft orðinn ansi uppgefinn á öllu jólaatinu, meðfram vinnu og á hlaupunum til að kaupa fyrir heimilið, til skreytinga, matvörurnar, jólafötin, jólagjafirnar og svo jólakortin sem liggur við að séu skrifuð í bílnum á leið á milli staða, en samt er hvergi slakað, frekar bætt við til að gera enn betur og flottar en í fyrra.

Ekki má heldur gleyma jólahreingerningunni sem að verður að vera gerð, þó svo að þrifið sé mjög reglulega á allflestum heimilum í dag og varla sjáist til hvað verið er að gera.

Í þessu stressi og hlaupum verður það ansi oft þannig, að heilsan og hvað er gott fyrir hana, fer fyrir ofan garð og neðan. Minna er borðað af hollum mat og minna er hugað að hvíld. Útivera verður hjá flestum sú, að hlaupa á milli bílsins og búðanna, bílsins og boðanna og bílsins og heimilisins.

Gripið er í „eitthvað fljótlegt“ til að elda fyrir börnin og svo rokið í næstu veislu og þar skína kræsingarnar á borðunum. Oftar en ekki er heldur meira borðað þar en til stóð, sér í lagi þar sem að lítil næring hafði verið sett í kroppinn yfir daginn í stressinu og svo öllu rennt niður með góðum veigum.

Slíkt kvöld þakkar því miður líkaminn okkar sjaldnast. Líkaminn reynir alltaf að kalla á jafnvægi, og svona OF af öllu, er of mikið fyrir hann. Hvað þá ef að margir dagar og mörg kvöld eru á svipaða vegu. Hve lengi getum við boðið okkur og líkama okkar þetta stressástand. Er ekki ráð að stíga á bremsuna og horfa til beggja hliða áður en að haldið er áfram.

Reynum að hægja aðeins á – jólin koma, það eitt er víst, hvort heldur ALLT er búið eða ekki. Reynum að setja líka hollustu í kroppinn og reynum að hvíla okkur yfir kertaljósi og rólegheitum. Okkur á eftir að líða miklu betur ef að meira jafnvægi kemst á, þá verðum við ekki jafn útkeyrð yfir hátíðarnar.

Njótum aðventunnar og hugum að því fyrir hvað hún stendur.

Njótum þess þau ykkar sem fara í Kerhraunið að dáðst að jólaljósunum á grenitrénu, verum þess minnug að þetta tré lýsir upp svæðið okkar á dimmasta tíma ársins. Ef einhverjir hafa þá þegar ákveðið að slappa af við kertaljós þá má bénda á að hægt verður að fá þessi fallegu kerti á jólamarkaði Kerhraunskvenna nk. laugardag.