Þar sem að jólin nálgast óðfluga þá er ekki óeðlilegt að það skapist smá spenna í mannskapinn. Fyrsta skrefið er aðventan og því ekki úr vegi að rifja aðeins upp hvað hún þýðir og hvað henni fylgir.
Eftirfarandi er smá fróðleikur um aðventuna og aðventukransinn:
Aðventan hefst næst komandi sunnudag, 28. nóvember. Þessi árstími var löngum og er reyndar víða enn kallaðar jólafasta, sem helgast af því að fyrr á öldum mátti þá ekki borða hvaða mat sem var, t.d. alls ekki kjöt. Orðið aðventa er dregið af latnesku orðunum Adventus Domini, sem þýða „koma Drottins“.
Aðventukransinn á uppruna sinn í Þýskalandi. Heiti og tákn aðventukertanna:
Fyrsta kertið nefnist Spádómskertið
Kerti vonarinnar og biðtímans, við minnumst allra þeirra spádóma sem Biblían geymir um komu Krists.
Annað kertið nefnist Betlehemskertið
Með vísan til þorpsins sem Jesús fæddist í og þar sem ekkert rúm var fyrir hann.
Þriðja kertið nefnist Hirðakertið
Það minnir okkur á hve mikil gleði ríkti þegar hirðarnir fengu fyrstir fréttirnar um fæðingu frelsarans enda snauðum og ómenntuðum fjárhirðum sögð tíðindin góðu, á undan öllum öðrum
Fjórða kertið nefnist Englakertið
Kerti friðarins. Þetta kerti minnir okkur á að englar Guðs opinberuðu fjárhirðunum frið á jörðu.