Þegar hátíð halda skal þá þarf undirbúning og á því varð engin breyting í ár, mikil heilabrot eru alltaf þegar kemur að varðeldinum þar sem brunavarnir eru af skornum skammti hjá okkur, í mesta lagi ein til tvær vatnsfötur. Í ár hefur ekki rignt mikið, gróður hefur vaxið og var orðinn þurr þannig að formaðurinn sem er eldhræddur maður var að fara á límingunni….)), nei, það sanna er að hann er ábyrgur maður og vill ekki stofna hjörð sinni í hættu.
Nú voru góð ráð dýr og mikið rætt hvað væri hægt að gera, niðurstaðan varð sú að hætt yrði við varðeldinn og í staðinn yrði bara arineldur. Það var ákveðið að hafa „generalprufu“ kvöldið áður og þótti hún takast með afbrigðum vel og því gefið stórt GO á að hafa arineld.
Það var ákveðið að kanna aðstæður í Gilinu og þegar þeirri könnun lauk þótti ástæða til að taka til hendinni og enn og aftur sannaðist það að það er ekki nóg að framkvæma það þarf viðhald. Það kom í ljós að þarna var mikið af gömlu útbrunnu efni og í hrúgunni var ógrynni af nöglum, skrúfum, hjörum og járnbútum þannig að það varð að gera eitthvað í því að hreinsa þetta svo enginn slasaði sig nú á þessu.
Ási og Finnsi ákváðu að hittast kl. 10:00 á laugardagsmorgninum og gera skurk í að laga til í Gilinu okkar fallega. Þeir byrjuðu á því að ná í „Grænu þrumuna“ og mokaði hún rauðamöl í kerru sem „Amma myndar“ keyrði upp í Gil. Það er skemmts frá því að segja að kerran varð full á augabragði af ruslinu sem þarna var.
Á þessum tímapunkti var blankalogn og hvað gerist þá, jú, flugan getur orðið ansi ágeng og formaðurinn var að verða frekar pirraður á fjand… flugunni og prófaði að setjast og taka af sér húfuna en þær létu sér ekki segjast. Gunna stóð bara hjá og tautaði að hún væri í Ab- og þær litu ekki við sér.
Þá stökk formaðurinn á fætur og hristi sig og skók og sagði: „Þetta er eina ráðið að losan við flugurnar“, Gunna snéri sér við og rak upp öskur og vildi auðvitað mynda.
Öll vorum við farin að þreytast og þá þurfti að taka ákvörðun um hvað ætti að gera við allt ruslið og Finnsi kom með þá snilldarhugmynd að urða það í bílaplaninu, því varð „Vegamálastjóri 1“ fenginn til að taka stóra holu og í hana fór allt ruslið.
Það sem upp úr stendur er að bæði Gilið og bílaplanið litu út eins og ný því ber að þakka þessu góðu strákum okkar sem alltaf eru boðnir og búnir að gera eitthvað fyrir Kerhraunið. Finnsi fór svo eftir hádegi og setti nýjar spýtur neðan á alla bekkina og fær hann þakkir frá okkur fyrir það framtak.
Nú var bara að bíða eftir að klukkan yrði nógu margt til að fara og skemmta sé við arineld, söng, glens og gaman.