Kerhraun

Bréf sveitarstjóra til sumarbústaðaeigenda

Hér að neðan er annars vegar skýring á því þjónustugjaldi sem greitt er vegna sorps frá frístundahúsum og hins vegar mögulegar lausnir við sorphirðu frá þeim.

Hvert er þjónustugjaldið sem sumarhúsaeigandi greiðir til sveitarfélagsins?

Þjónustugjöld sveitarfélagsins um meðhöndlun úrgangs sem snúa að fasteignaeigendum eru tvenns konar, sorphirðugjald og sorpeyðingargjald. Í gjaldskrá sveitarfélagsins eru þessi þjónustugjöld skilgreind þannig:

Sorphirðugjald. Innheimta skal sorphirðugjald af öllu íbúðarhúsnæði í Grímsnes- og Grafningshreppi samkvæmt eftirfarandi álagsgrunni. Sorphirðugjaldið er samsetning af kostnaði við leigu og losun á Grátunnu og Blátunnu og miðast við stærð þeirra íláta og losunartíðni hjá viðkomandi íbúðarhúsnæði.

Sorpeyðingargjald. Innheimta skal sorpeyðingargjald af öllu húsnæði í Grímsnes- og Grafningshreppi, íbúðarhúsnæði, frístundarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Sorpeyðingargjaldið skal vera í samræmi við áætlað magn heimilisúrgangs, annað en garðaúrgangur, timbur og spilliefni, sem til fellur hjá viðkomandi húsnæði á ársgrunni ásamt umsýslukostnaði vegna þess.

Fasteignir sem skilgreindar eru sem íbúðarhúsnæði í Grímsnes- og Grafningshreppi greiða í ár kr. 27.116.- í þjónustugjöld fyrir sorphirðu og sorpeyðingu. Frístundarhúsnæði (sumarhús) greiðir kr. 5.596.- sem þjónustugjald fyrir sorpeyðingu. Frístundarhúsnæði getur jafnframt fengið sorphirðuþjónustu samanber 5. gr. samþykktar nr. 37/2010 um meðhöndlun úrgangs í Grímsnes- og Grafningshreppi:

„Húsráðanda frístundahúss er ekki skylt að hafa grunneiningu íláta en getur óskað eftir því. Samkomulag um slíka grunneiningu er á milli húsráðanda frístundahúsnæðisins og þjónustuverktaka. Stærð grunneininga er 240 l blátunna og 240 l grátunna. Húsráðendum frístundahúsa er heimilt að sameinast um ílát. Í þessi ílát má aðeins setja heimilisúrgang, annan en garðaúrgang, timbur og spilliefni. Sé fyrirséð að ílátin yfirfyllist getur húsráðandi óskað eftir stærri eða fleiri ílátum. Einnig getur hann farið með umframmagn heimilisúrgangs á söfnunarstöð sveitarfélagsins. Húsráðandi frístundahúss sem ekki hefur grunneiningu íláta, skal skila heimilisúrgangi á söfnunarstöð sveitarfélagsins.

Staðsetning íláta má að hámarki vera 200 m frá söfnunarleið söfnunartækis. Aðgengi að ílátum skal henta söfnunartækjum og skal húsráðandi gæta þess að ílát séu hrein, vel við haldið og að ekki sé hætta á að þau fjúki. Festingar íláta mega ekki hamla losun þeirra. Gott aðgengi skal vera að ílátunum og moka skal snjó frá þeim ef þörf krefur vegna söfnunar.

Öðrum úrgangi frá frístundahúsnæði skal skila á söfnunarstöð sveitarfélagsins eða semja við þjónustuverktaka um ílát og þjónustu fyrir slíkan úrgang.“

Hvernig getur frístundahús leyst sorphirðu sína?

1. Ef opnunartími gámastöðva sveitarfélagsins henta ekki þá er hægt að kaupa sorphirðuþjónustu af þjónustuaðila sveitarfélagsins. Sími svæðisstjóra þjónustuaðilans er 660-2882 og söluskrifstofu 535-2510.

2. Eða gera eins og hjón úr Hafnafirði sem eiga bústað hér á svæðinu og hafa leyst sorphirðumál bústaðarins á einfaldan hátt. Þessi hjón eru flestar helgar í bústaðnum sínum og stóran hluta sumarsins. Þau eru með tvær sorptunnur við bústaðinn sinn (sem að þau eiga sjálf) og flokkar í þær eftir flokkunarreglum sveitarfélagsins. Einu sinni í viku, á laugardögum, taka þau ruslið með sér á gámastöðina sem næst er um leið og þau fara í búðina (eða sinna öðrum erindum). Í þeirra huga er þetta ekki vandamál, þau greiða bara sorpeyðingargjaldið og spara sér sorphirðugjaldið

3. Algengast er þó að sumarhúsafélögin geri samning um sorphirðu við þjónustuaðila fyrir sitt svæði.

Grímsnes- og Grafningshreppi 9. apríl 2010,

með kveðju,
Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri