Þetta er pínulítil saga af strákum sem hétu Gunni og Garðar, þeir voru svo heppnir að eiga þess kost að fara í sumarhúsin sín alltaf þegar þá langaði til. Þetta höfðu þeir gert mörgum sinnum og vissi því alveg hvernig átti að komast þangað og því alls óhræddir að fara þangað þegar þeim sýndist. Einu sinni sem oftar langaði þá að skreppa en það sem var öðruvísi en vanalega, var að nú virtist vera fyrirstaða sem fékk þá til að langa miklu, miklu meira, þeir létu því snjóinn engin áhrif hafa á sig og hvor um sig hélt sínu striki og lögðu í ferðalagið fullir tilhlökkunar.
Báðir strákarnir elskuðu jeppana sína sem þeir vissu að kæmu þeim á alla þá staði sem þeir vildu fara á, spenningurinn var mikill og Hellisheiðin reyndist þeim auðveld, þó útsýnið væri lítið á köflum þá vissu þeir báðir hvar vegurinn var, báðir höfðu þeir farið þessa leið mörgum, mörgum sinnum, stikurnar meðfram veginum lýstu þeim leiðina og það var eins og þær væru að bjóða þá velkomna og biðja þá endilega að halda ótrauða áfram ferð sinni. Þó ekki sé vitað með vissu þá er talið að annar þeirra hafi stoppað í Hveragerði til að ná í birgðir og eins og það kallast á ferðalögum „Að meta stöðuna“. Eftir það mat var haldið áfram sem leið lá að Selfossi og það var bara endrum og eins sem hægt var að njóta útsýnisins, en það gerði ferðina bara miklu skemmtilegri.
Ferðin sóttist vel enda voru stikurnar alltaf að bjóða þá velkomna og biðja þá að halda áfram, endrum og sinnum sáu þeir að einhverjar litlar bíltíkur sem voru í vegkantinum, höfðu ekki treyst sér lengra en þar sem engir voru í bílunum var ekkert hægt að gera og jepparnir þeirra æstir í að finna þá bara önnur tækifæri að glíma við enda ekkert á því að gefast upp. Þeir liðu því eftir Biskupstungnabrautinni og allt í einu var komið að því að beygja til vinstri og nú gafst tækifæri til að kanna nýjar/gamlar slóðir. Æ, æ, æ, hvar voru nú stikurnar sem alla leiðina höfðu boðið þá velkomna, þær voru ekki lengur til staðar og nú tóku allir ferðafélagarnir þátt í því að vísa veginn enda nánast komið á leiðarenda og enginn ágreiningur um það.
Flestir voru með það á hreinu eftir að beygt hafði verið til vinstri hjá Seyðishólnum að nú væru menn að keyra niður brekkuna sem lá inn í Kerhraunið. Allir urðu sammála um að svo væri, enda lék enginn vafi á því, framundan blasti við „Hliðið“ sem varnar ókunnugum inngöngu í Kerhraunið. Hliðið leit út í fjarska eins og allar stikur heimsins hefðu verið settar á það til að prýða það, ánægjan var mikil að vera nú loks á áfangastað og ekkert eftir nema að keyra BEINA KAFLANN. En stundum verður beint pínu skakkt og ekki alveg hægt að segja hvað er beint og hvað ekki beint.
Síðasti spölurinn gekk nú bara ansi vel þrátt fyrir að ekkert væri til að lýsa leiðina nema ljósin á bílnum en það verður að taka fram að Gunni var á undan Garðari að komast á leiðarenda þrátt fyrir að hann ætti ekki HUMMER eins og Garðar, en svoleiðis bíl langar alla stráka að eiga enda kemst bíllinn víst ALLT.
Svo gerist það skrýtna og það má sjá á fyrstu myndinni að Garðar sá bílinn hans Gunna og spurði alla ferðafélagana „Var helv.. maðurinn ekki að koma á staðinn, því snýr bílinn eins og hann sé að fara?“, hann fékk bara ekkert svar því ferðafélagarnir vissi ekki svarið og við þessa uppákomu var eins og HUMMER bílstjórinn yrði á í messunni því snögglega beygði hann til vinstri og lenti næstum inn á lóð 27 og vá hvað rafmagnskassinn var nálægt, eða hvað?.
.
.
Það fór sæluhrollur um alla því allir vissu að nú væri ævintýrið fyrst að byrja, ákveðið var að kanna var hvort Gunni væri að koma eða fara og seinna átti svo HUMMER að fá að leika sér. Það skýrðist fljótlega að Gunni var kominn á svæðið en átti þess alls ekki kost að fara neitt því bíllinn var kolfastur en hann gat útskýrt fyrir öllum af hverju bíllinn snéri svona og fólk bara sátt við þær útskýringar, það er samt ekki hægt að segja frá því hér hver ástæðan var og við fáum aldrei að vita hvort hann ætlaði yfir höfuð einhvern tímann að fara eitthvað.
.
.
En sagan var ekki alveg búin því HUMMER átti eftir að fá að leika sér, stundum fer bara ekki allt eins og ætlað er, því það var eins og allur vindur væri úr HUMMER eftir að hann sá bílinn hans Gunna kolfastann og því álagið allt hans megin að standa sig. Hann gerði allt sem hann gat og remdist eins og rjúpa við staur (er hægt að segja svona um HUMMER?) að losa sig og það eina sem gerðist var að hann nálgaðist rafmagnskassann meir og meir. Hann var sko ekkert á því að valda eiganda sínum vonbrigðum og því gerði hann allt hvað hann gat, eða allt sitt besta, notaði allt það afl sem hann hafði og stökk af stað.
Það sem hann hafði upp úr krafsinu var að hann meiddi sig pínulítið í vinstri framhurðinni af því rafmagnskassinn gat ekki forðað sér. Hann beið því rólegur eftir að heyra hvað eigandinn hefði um þessa uppákoma að segja. Hann brást honum ekki eins og hann vissi nú fyrirfram, hann heyrði sagt mildri röddu „Við geymum þetta til morguns og sækjum bílinn þá, OK“ og svo dreif allur skarinn sig í heim í sumarhúsið enda beið steikin tilbúin og rauðvínið sem hafði fengið aldrei þessu vant nægan frið til að anda meðan á björgunaraðgerðum stóð….)))
Stuttu seinna varð allt dimmt og í myrkrinu voru jepparnir aleinir og gátu ekki einu sinni spjallað saman því allt of langt var á milli þeirra þar sem Gunni hafði ákveðið í einhverju bríaríi fyrr um kvöldið að fara og þannig leið nóttin í kulda og trekk.
.
.
Þrátt fyrir að strákarnir ættu báðir jeppa sem allt áttu að geta þá varð raunin sú að það varð að fá aðstoð til að bjarga þeim daginn eftir enda betra að nota kvöldið og „FÁ SÉR EINN“. Fenginn var upphækkaður jeppi með öll þau tól og tæki sem til þurfti og hann átti auðvitað meistari Hallur og það tók enga stund að losa bílana. Mikið voru bílarnir nú fegnir að vera lausir og báðir höfðu þeir lært sína lexíu og voru reynslunni ríkari.
Gunna bíll ætlar alltaf í framtíðinni að keyra á veginum og HUMMER taldi að kannski þyrfti hann að létta sig aðeins.
.
.
En eins og góðar sögur eru þá enda þær vel og allir standa uppi sem sigurvegarar og sjaldan eða aldrei hafði Garðar verið eins sæll og glaður eins og þegar tókst að losa HUMMER úr þessari prísundu. Spennandi tímar voru framundan og ekki alveg útséð með það hvort veturinn var kominn til að vera.
.
.
Allir sem tóku þátt í þessu ævintýri þakka hjónakornunum Gunna og Sóley kærlega fyrir móttökurnar þrátt fyrir að kaffið og kökurnar væru ekki sjáanlegar að þessu sinni, allir sem til þeirra hjóna þekkja vita að hjá þeim eru oft kökur að finna.
.