Páskar nálgast – eggið brotar og hvað svo?

.


.

Páskaegg og páskar hljómar saman. Súkkulaði og málháttur er spennandi blanda, allir vilja og vonandi fá flestir. Svo eru enn aðrir sem tengja páska og skíði saman í eitt. Útivera, frí og ferðlög, spurning um veður og það hvort „Páskahretið“ láti nokkuð á sér kræla.

Þetta er yfirborð páskanna, skurnin á egginu. Skurn sem frá náttúrunnar hendi er ofur sterk en getur brotnað við illa meðferð.

En hvað er þá inni í egginu sjálfu? Þar er líf og þar er framtíð. Páskaeggið er tákn um lífið. Fyrirheiti um líf sem muni vakna. En það þarf aðstæður til. Eggið þarf sitt umhverfi og sína hlýju. Í öllum þessum tákrænu umbúðum býr helgur boðskapur páskanna. 

Lífið hefur aldrei verið einlitt, hvítt eða svart. Skuggar lífsins virðast á stundum saklausir og litlir en þeir megna oft að taka ljósið algjörlega frá fólki. Þar hefur eggið brotnað í aðstæðum sem skapa ekki líf. Eggið má ekki brjóta, nema réttar aðstæður séu fyrir hendi. Allt líf þarf á umhyggju að halda. Það þarf hlýju, mjúkar hendur og aðstæður, sem taka á móti lífinu í trú. Þá vex það og dafnar.

Hátíð lífsins er framundan, brjóttu ekki skurnina fyrr en aðstæður eru lífinu jákvæðar. Munum samt að gleðja hvort annað um páskana, njóta þess að vera saman, hitta skemmtilegt fólk og ekki verra að láta eitthvað gott af sér leiða það er góð tilfinning.