Kynningarfundur vegna breytinga á sorphirðu haldinn á Borg 22. september sl.

Af hálfu félagsins sóttu fundinn þeir Hans Einarsson og Elfar J. Eiríksson. Fundurinn var haldinn til að kynna breytingar á sorphirðu í sveitarfélaginu.

Það kom fram hjá framsögumönnum að ástæðan fyrir þessum breytingum væru tvær, annarsvegar að uppfylla lög og reglugerðir varðandi sorphirðu/urðun og hins vegar að urðunarsvæðið á Kirkjuhjáleigu er að lokast, þarf í framhaldi af því bæði Grímsnes- og Grafningshreppur og Bláskógabyggð að keyra öllu sorpi til Reykjavíkur í Sorpu. Þýðir þetta verulega hækkun á kostnaði við sorp í sveitarfélaginu, gjaldið er nú um 4 kr. pr. kg. en fer í rúmlega 11 kr. pr. kg. eftir því hvernig úrgang er um að ræða, ætlunin er að fyrirkomulagið fyrir austan verði í takt við það sem þekkist hjá Sorpu í Reykjavík. Það verða 4 gámastöðvar með mismunandi opnunartíma sem reyndar er ekki frágengið hver verður, þó voru kynntar ákveðnar hugmyndir sem fundargestir tóku illa í.

Sumarhúsabyggðum verður boðið upp á að semja sérstaklega við Gámaþjónustuna um gáma/kör sem yrðu þá staðsettir innan hvers svæðis með tæmingu á 2ja vikna fresti, en vikulega yfir sumarmánuðina. Það var töluverð óánægja meðal fundarmanna bæði þeirra sem voru þarna sem sumarhúsaeigendur sem og þeirra sem búsettir eru í sveitarfélaginu að svona fundur hefði ekki verið haldinn fyrr og þá í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta á svæðinu, einnig að eitthvert tillit yrði tekið til athugasemda sem voru fjölmargar á fundinum og var það að heyra á framsögumönnum að lítið eða ekkert tillit yrði tekið til þeirra, þetta væri kynningarfundur á því sem búið væri að ákveða.

Það eru mörg sumarhúsafélög sem munu þurfa að koma sér upp aðstöðu fyrir sorp inn á sínu svæði, en Kerhraunið er í rauninni í mun betri stöðu, þar sem svæðið við Seyðishóla er stutt frá okkur og það ætti að duga. Spurning með sumartímann hvort skoða ætti að fá 4 rúmmetra gám undir húsasorp en til þess að það yrði hægt þyrfti að útbúa plan fyrir gáminn inn á sameiginlega svæðinu og nægt rými fyrir fjögurra öxla gámabíl til að komast að gámnum.

Fundi lauk kl. 22:30