Senn koma jólin með allri sinni fegurð en um leið með sínum skarkala. Það er ekki sjálfgefið að jólin færi okkur gleði. Til að svo megi verða þurfum við að undirbúa okkur. Ef við ætlum að keppa í íþróttum og ná árangri verðum við að æfa okkur. Það sama á við um jólin. Ef helgi jólanna og gleðiboðskapur þeirra á að ná til okkar þá verðum við að gefa okkur tíma til undirbúnings. Ein hlið undirbúningsins er praktísk, að skreyta húsið, baka og þrífa. Síðan þarf að kaupa gjafir, jólaföt á börnin og mat. Þetta getur verið gaman og getur kallað fram jólahughrif en oft á tíðum finnum við meira fyrir umstanginu og álaginu sem þessu fylgir. Kröfurnar í umhverfinu eru svo miklar og áreitið endalaust, allskonar tilboð og ytri þrýstingur í gangi. Síðan eru það kröfurnar sem við gerum á okkur sjálf. Allt getur þetta valdið ókyrrð og jafnvel kvíða. Ef að það eru kenndir sem verða ofaná í undirbúningnum eru jólin byrði.
Markmið jólanna er að draga fram frið, kærleika og gleði. Til þess að það markmið náist þurfum við líka að undirbúa okkur andlega undir jólin. Það á að gerist á kyrrlátan hátt. Höfum því hugfast að við og allir sem næst okkur standa eigi blessunarríka aðventu og jól.