Hugleiðing um gamla tíma, koma þessi tímar aftur?

Þegar jólaveinarnir gáfu mér í skóinn, þá var ævintýri að kíkja í skóinn dag hvern. Spenningurinn yfir að sjá eina mandarínu og kannski 2 tíkalla var gríðarlegur, jafnvel þótt að það væru til tuttugu mandarínur í eldhúsinu. Þetta var MÍN mandarína sem jólasveinnninn gaf MÉR. Þó var ég einbirni og hafði enga sérstaka þörf til að skilgreina mitt dót eða nesti, enda ein um þetta allt.

Svo kom aðfangadagur og ávallt var Kertasníkir sá sem gaf mér stærstu gjafirnar. Ég man nú samt ekki hvað það var endilega, en hans gjafir voru innpakkaðar og yfirleitt eitthvað sem ég gat dundað mér við á aðfangadag á meðan beðið var eftir jólunum. Mér þótti þó aldrei minna vænt um hina jólasveinana eða það sem þeir færðu mér.

En þetta átti svo sem ekki að verða nein jólahugvekja um æskuárin mín.

Ég var þó að pæla að eftir að ég varð fullorðinn og jólasveinarnir hættu að gefa mér persónulega í skóinn, þá finnst mér eins og þeir hafi eitthvað ruglast í ríminu. Það er kannski alveg skiljanlegt þar sem íslenskt þjóðfélag breyttist hratt og þeir örugglega þurft að vera með í uppsveiflunni. Börn voru farin að fá risagjafir frá öllum jólasveinunum á borð við DVD myndir eða boli.

Það er full ástæða til að beina þessum pistli til íslensku jólasveinanna. Það er sniðugt að byrja að byrgja sig upp snemma og kaupa með góðum fyrirvara það sem á að gefa börnum í skóinn. Ef eitthvað stærra er keypt, má alveg gefa það í pörtum, eins og kassa af Playmo, Strumpum eða öðru áhugaverðu. Ávextir eru góðir í skóinn og börnum finnast þeir ávextir sem koma í skóinn mun betri en þeir sem fást í búðum. Hrós er líka alveg hrikalega góð gjöf í skóinn það má skrifa á miða og lauma með.

Það er ekki verið að segja að jólasveinum sé bannað að kaupa eitthvað krúttulegt í skóinn fyrir börnin. Bara að minna jólasveinana á að það má alveg gæta hófs og þótt þeir séu 13 bræðurnir þá er enginn samanburður í gangi hjá börnunum. Jólin og aðventan eru stór hluti af íslensku samfélagi, en hún snýst jú ekki bara um gjafir, heldur aðallega um samveru og minningar. Það eru fréttir af heimilum þar sem búið er að spora út í gluggakistunni þegar snjóar úti, pottarnir allir komnir fram á gólf eftir Pottaskefil, búið að borða smá af skyrinu í ísskápnum morgunin sem Skyrgámur kom við og fleiri svona ummerki. Þetta getur skapað miklar umræður og skemmtilegar minningar hjá börnum.

Eigið gleðilegar heimsóknir frá jólasveinunum.