Jólin eru gengin í garð og næsta stórhátíð eru áramótin

Um áramót staldra flestir við, velta fyrir sér stöðu sinni og hvað framtíðin beri í skauti sér og við leiðum hugann að hlutum sem yfirleitt verða útundan á öðrum árstímum. Við hugsum góðar og fallegar hugsanir sem gleymast í erli hvunndagsins. Hugsanir sem við leyfum okkur alltof sjaldan að gefa okkur á vald.

Áramótin marka tímamót. Þau eru endapunktur á tímaskeiði og við lítum um öxl. Var síðasta ár gott ár? Það fer auðvitað talsvert eftir því hver er spurður og það getur líka farið eftir því á hvaða sjónarhóli hann stendur þegar hann svarar. Sami einstaklingur getur þannig líklega svarað spurningunni á fleiri en einn veg – allt eftir því við hvað hann miðar.

Við skulum ganga til móts við nýtt ár með jákvæðu hugarfari – huga að velferð þeirra sem standa okkur næst – án þess að gleyma þeim sem eiga um sárt að binda  Þeir þurfa á okkur að halda.