Birkifræ, söfnun/sáning – Rétti tíminn er núna að safna

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessari hugmynd er skotið til ykkar kæru Kerhraunarar, full ástæða til að kíkja á þessa grein því það er fullt af svæði í Kerhrauni sem henda mætti fræi á og seinna verða þessi fræ að fallegum birkitrjám.

 

Af litlu fræi verður of lítið/stórt tré

Fróðleiksmolar

„Flest ár myndar birki yfirleitt eitthvað fræ sem safna má og nýta annað hvort til beinsáninga eða til plönturæktunar í bökkum eða beðum. Beinsáningar aðferðin er ekki eins skilvirk og ræktun í gróðrastöðvum og þarfnast meira magns af fræi. Þó getur sáning gefið góða raun þar sem aðstæður eru réttar.

Hversu vel fræið spírar er afar breytilegt frá einu ári til annars. Spírunin stjórnast af ýmsum þáttum s.s. veðurfari sumarsins áður. Myndast brum birkisins um mitt sumarið. Sum brumin mynda greinar og önnur mynda blómbrum. Annað hvort verða brumin karlkyns eða kvenkyns og eru það kvenkyns brum sem verða að frækönglum. Á myndinni til hægri má sjá karlblómin lafandi og kvenblómin upprétt.

 

.

Blómgun er oft mikil í birki og fleiri tegundum vorið eftir þurr og sólrík sumur, en getur á hinn bóginn verið lítil eftir köld og blaut sumur. Einnig geta ýmsir þættir s.s. vorfrost, bleytutíð eða þurrkar eyðilagt eða dregið úr fræmyndun, þó blómgun eigi sér stað að vori. Sumarið 2007 var eins og margir muna ákaflega þurrt víða um land, t.d. í innsveitum sunnan og vestan lands og er því fræmyndun með mesta móti víða um Suðurland. Reglan er sú að þegar fræár er gott spírun fræsins góð.

Frætínsla á birki

Hvenær best er að safna birkifræi fer eftir þroska og tíðarfari. Yfirleitt hefur verið mælt með frætínslu í september og október, en miðað við hversu langt birkið er komið í þroska í hlýjum árum eins og nú í ár, þá mætti jafnvel byrja tínslu fyrr þ.e. frá lokum ágúst.

Í bókinni ,,Um skógrækt“ frá 1921 skrifar Kofoed Hansen skógræktarstjóri um fræsöfnun af birki ofl. Lýsingu hans um hvenær tína má birkifræ er enn fullgild og fylgir hér: ,,…Birkifræinu er safnað síðast í september, þegar hreystrarblómin voru farin að verða brúnleit. Þá er því dreift á gólfi, í þurru frostlausu herbergi, og þannig þangað til það er orðið alveg þurrt, 2-3 vikur. Á því tímabili verður það um leið fullþroskað. Ekki er hægt að safna fullþroskuðu birkifræi, því um leið og svo langt er komið á þroska þess, þá fellur það til jarðar. Á eftir má hrúga því saman eða geyma það í pokum. …“.

Við þetta má svo bæta að ágætt er að tína birkifræið skv. lýsingunni hér að ofan, en dreifa því samdægurs. Þannig sparast geymsla á fræinu í kaldri geymslu.

Talið hefur verið að vaxtarlag trjánna og hugsanlega vaxtarþróttur þeirra erfist og því er mælt með því að fræi sé safnað af vöxtuglegum trjám frekar en jarðlægum runnum. Fræplöntur af kröftugum trjám eru líklegri til að vaxa hraðar í bernsku sem getur verið mikill kostur vilji fólk fá skóginn sinn hratt upp.

Svo tínslan gangi hratt og er gott að útbúa sér ílát sem binda má framan sig, t.d. plastpoka, dagblaðatösku eða fötu. Hinir stórtækustu geta útbúið sér gjörð með stórum poka sem hentar vel þar sem skógar eru ekki mjög þéttir. Þægilegast er að safna fræinu þegar birki hefur fellt lauf enda má þá strjúka það af greinunum með lítilli fyrirhöfn. Ef safna á fræi mjög seint er hætt við að hauststormar hafi verið fyrri til og feykt fræinu af trjánum.

Sáningartími

Einfaldasta aðferðin er eins og nefnt var hér að ofan að sá birkifræinu beint strax eftir að því hefur verið safnað. Einnig mætti geyma fræið í kæli yfir veturinn við 4°C og sá því snemma vors, eða nýta það til sáninga í trjáplöntustöðvum. Í náttúrunni þroskast fræið á trjánum og fýkur af þeim frá því snemma á haustin og fram á næsta vor. Umhleypingar vetrarins sjá til þess að fræið fær kaldörvun og hafi það ratað á hentugan stað, þ.e. hentugt fræset, mun það spíra þegar aðstæður leyfa. Ekki er þó víst að fræið spíri stax vorið eftir sáningu, en það heldur spírunargetunni þó í nokkur ár. Því geta liðið allt að 5 ár áður en árangur sáningarinnar kemur í ljós. En fjölmörg dæmi eru um ágætan árangur slíkra sáninga s.s. Hákonarlund í Haukadal í Biskupstungum, Gunnlaugsskóg á Rangárvöllum og birkiskóginn í Stóra-Klofa.

Hvar og hvernig er best að sá birkifræinu? 

Mikilvægt er að velja birkifræinu rétt sáðbeð. Lítið þýðir að dreifa birkifræi beint í grófa vikra, sanda eða mela sem frosthreyfing er mikil. Ekki er heldur vænlegt til árangurs að sá beint i grasi vaxið land eða mosaþembur. Best hefur reynst að dreifa fræi yfir hálfgróin lönd t.d. gömul landgræðslusvæði, hálfgróna jaðra á rofum eða hálfgróin hraun. Einnig hefur birki verið sáð í unnið land t.d. þar sem mosa eða grasi hefur verið flett af jarðvegsyfirborði. Á myndunum má sjá hverskonar land getur hentað ágætlega til beinsáninga. Dreifing á tilbúnum áburði og hugsanlega húsdýraáburði gæti bætt árangur birkisáninganna.

Best er að dreifsá birkifræinu með höndum á jarðvegsyfirborð en fella það ekki niður þ.e. þekja fræið ekki með jarðvegi. Til að fræið nái að spíra þarf það góða snertingu við jarðveginn svo gott er að stíga á fræið eftir sáningu. Einnig mætti hugsa sér að aka á breiðdekkja tæki yfir sáningarsvæðið ef aðstæður leyfa. Ekki þarf að sá miklu fræmagni á hvern blett enda eru birkifræ afar smá og er algengt að 200-800 spírandi fræ séu í hverju grammi. 

Fræsöfnun fyrir Kerhraunið

Algengt er að birkitré séu þakin fræi og hafa ágæt fræár verið undanfarin haust s.s. 2008 og nú árið 2011. Fræsöfnun er ákaflega skemmtileg viðbót við sunnudagsgöngu og góð ástæða til að njóta haustlita í skjóli birkiskóga. Vil ég því hvetja fólk til að skreppa út í skóg eða garð og tína fræ af birkitrjám. Fræið kemur að góðum notum hvort sem fólk vill sá því sjálft í eigin lönd eða á sameiginlega svæið okkar.

Birkiplöntur eru víða að spretta upp af fræi í nágrenni gamalla og yngri birkiskóga. Í sumum tilfellum hefur birkifræið augljóslega borist langa vegu frá móðurplöntunum, en meiri þéttleiki er í sjálfsprottnu birki þegar nær dregur gömlu skógunum.

Þessi samantekt er byggð að hluta á greininni ,,Birkifræ söfnun og sáning“ eftir Ásu L. Aradóttur og Þröst Eysteinsson sem birtist í Morgunblaðinu 16. október 1994 og á greininni ,,Tveir kaflar úr íslenzkri skógarfræði“ eftir Agner Koefod-Hansen, úr bókinni Um skógrækt frá árinu 1921.
 

Í stuttu máli


safna birkifræi frá lokum ágúst og fram í byrjun október. Eða svo lengi sem frækönglar eru á birkitrjánum.


nota ílát sem binda má framan á sig, svo báðar hendur séu fríar.


velja falleg tré til að safna af.


annað hvort þurrka fræið í kaldri geymslu og geyma það svo þurrt í kæliskáp, eða sá því beint fljótlega eftir að því var safnað.


velja sáningarstaði á hálfgrónu landi eða þar sem gróðurhula hefur verið skafin af. Hvorki sá beint í lausasand, mela eða vikra, né grösugt eða mosavaxið land.


hylja ekki fræ með jarðvegi, en gott er að þjappa því niður í svörðinn t.d. með því að stíga það niður.