Það styttist og styttist í að þorrablótið byrji og það verða án efa margir sviknir af því að missa af þessu kvöldi því það er meiningin að hafa það algjörlega ógleymanlegt. Þó nafnið bendi til þess að á borðum verði bara sviðakjammar, pungar og súrmeti þá er það sko alls ekki raunin, því Sóley veit að það eru ekki allir hrifnir af þeim fj—– og hefur lofað að hafa margbreytilegt fæði í boði, fæðunni er svo skolað niður með úrvals fljótandi vökvum.
Vill stjórnin benda á að hún mun selja á staðnum „Beat the body with goji“ og verðið er kr. 1.900 flaskan. Af sérstökum ástæðum fást 2 flöskur á verði einnar – sem sé stjórnartilboð að beiðni Elfars sem vill endilega losna við þessar flöskur.
Eins og Garðari er einum lagið þá ætlar hann að sýna allar sínar bestu hliðar og hefur tekið að sér að sýna afrískan stríðsdans og syngja lagið Lady in Red kl 23:00.
Margt annað skemmtilegt verður í boði eins og:
Upplestur úr bókinni Brandarabankinn – lesari er leynigestur kvöldsins
Fjörugar umræður verða í 20 mínútur á færeysku og málefnið er:
Icesave: Ísland gjørt nýggja avtalu við Bretland og Niðurlond
Bingó verður spilað og vinningurinn er dagsferð um Kerhraunið á HUMMER
Dregið verður í vísnakeppninni kl. 00:00 og veitt verða verðlaun fyrir, besta botninn, klúrasta botninn og sorglegasta botninn, en fyrri hlutinn er eftirfarandi:
Innmat súrann og saltað kjét, í Kerhrauni skal étið.
Endurtekinn verður jóladans stjórnarmanna en þar sem formaðurinn er ekki á landinu og Sigurdór fjarverandi munu Hans og Gunnar hlaupa í skarðið.
Kosinn verður fallegasti ÞORRAÞRÆLLINN.
Ekki má gleyma að minnast á að Garðar og Hans ætla að syngja Kattardúettinn, að beiðni Sóleyjar og Rutar en Smári og Guðbjartur munu mjálma undir með söngvurunum.
.
.
Súludansinn verður stiginn um kl. 2:00 en þetta er ekki þessi hefðbundni súludans heldur dansað við súlur sem þá þegar er búið að grafa í jörðu (óskiljanlegt?).
Kvennaskólapíurnar Sóley og Svanhildur munu sýna leikritið, Silvio Berlusconi og þykir leikritið minna um of á skólagöngu stelpnanna.
Hrært verður upp í pottinum um kl. 3:00 og fyrstur til að stinga sér til sunds verður Smári og svo hinir 20 í kjölfarið og búist er við að þetta fari allt vel fram þó þröngt sé á þingi.
Hans, Garðar og Guðrún munu svo taka að sér undir morgun að tæma pottinn með þeirri einföldu aðferð að stökkva öll í hann í einu.
Sauna verður kynnt og þeir sem telja sig þurfa á dítoxhreinsun að halda geta verið þar frá 19. febrúar til kl. 12:00 þann 20. febrúar.
Ef tími vinnst til þá verður skotið upp flugeldum áður en nýr dagur rennur upp með aðferðinni 4 og 4 í einu.
Af þessu má sjá að það er ærin ástæða til að vera með í svona knalli og síðustu forvöð að melda sig inn til Sóleyjar eru kl. 12:00 á föstudaginn, 18. febrúar.