Umgengnisreglur í Kerhrauni
samþykktar á aðalfundi 2013 – uppfært í
febrúar 2024


Þessar umgengnisreglur gilda fyrir alla sem eru í Kerhrauni í skemmri eða lengri tíma. Þær ná yfir félagsmenn sem dvelja í húsum sínum, skyldmenni og fyrir gesti þeirra. Jafnframt gilda þessar reglur yfir þá sem leigja einstaka hús af eigendum og þá sem eru í húsum félagasamtaka.

1.  Almenn um umgengni

Allir sem eru í Kerhrauni skulu gæta þess að ganga vel um svæðið. Hver sem gengur um svæðið má ekki skilja eftir sig rusl á víðavangi, ekki valda spjöllum á gróðri, sameiginlegum eigum félagsmanna, göngustígum eða vegum. Það ber öllum að nýta þær skipulögðu gönguleiðir eða göngustíga sem eru í boði núna og alls ekki má ganga yfir einkalóðir. Vakin er sérstök athygli á því að eigendur bera fulla ábyrgð á að kynna þessar reglur fyrir iðnaðarmönnum eða öðrum þeim sem vinna á þeirra vegum á svæðinu.

2. Kyrrð                                                                                             

Forðast skal að valda öðrum ónæði með hávaða. Við höfum til hliðsjónar lög og reglur sem gilda um fjölbýli, en þar er miðað við svefnfrið frá miðnætti. Ef upp koma tilfelli s.s. afmæli eða ættarmót sem ætla má að standi fram yfir miðnætti er eðlilegt að geta þess t.d. á fésbókarsíðu félagsins. Jafnframt vekjum við athygli á því að ítrekað flug dróna yfir Kerhrauni getur valdið ónæði og truflun. Virðum reglur um friðhelgi einkalífs, persónuvernd og flug dróna – sjá reglugerð https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=47f6cbc2-ef27-43c6-bd85-8bc60e1a0342.

3. Lýsing

Öll útilýsing skal höfð í hófi og útiljósum frekar beint niður á við til að koma í veg fyrir óþarfa ljósmengun á svæðinu enda viljum við varðveita myrkurgæði. Þessi tilmæli taka ekki yfir lýsingar á aðventu og fram yfir áramót.

4. Gróður                                                                                          

Varðandi gróðursetningu trjáa á lóðum verða félagsmenn að kynna sér vel gildandi byggingarreglugerð en þar kemur m.a. fram að ekki er leyfilegt að planta hávöxnum trjám nær lóðamörkum aðliggjandi lóða en sem nemur 4.mtr. Í skipulagsreglugerð er lögð áhersla á að innan frístundasvæða séu fleiri en ein greið leið um og frá svæðinu. 

Lóðamörk ná aldrei út að veg en meðfram vegum eru 4.metra helgunarsvæði þar sem lagnir eru lagðar í jörð og þar má alls ekki gróðursetja. 

Gróðursetningu trjáa meðfram göngustígum miðast við 3.m frá stíg. 

Vert er að hafa í huga að þegar verið er að planta trjám við t.d. ný hús að tré sem verða hávaxin séu í góðri fjarlægð frá húsi. Einnig þarf að huga að brunavörnum á grónum svæðum og í leiðbeinum frá Skógræktinni kemur m.a. fram að best er að hafa gróðurlítið eða gróðursnautt svæði allt að 1,5m breitt næst byggingum.  

5. Akstur innan Kerhraunsins

Áríðandi er að allir í Kerhrauni viti af og virði að hámarkshraði allra ökutækja innan Kerhraunsins eru 30 km. Akstur allra ökutækja þar með talin, fjórhjóla, sexhjóla, mótorhjóla og snjósleða er með öllu bannaður utan vega, þ.m.t. á göngustígum.

6. Að valda tjóni                                                                                   

 Verði félagsmaður, hver sá sem dvelur á staðnum, starfar eða fer um svæðið valdur að skemmdum á eigum félagsmanna, gróðri, vegum eða hliði skal sá hinn sami bæta það tjón að fullu. Hér er átt við t.d. skemmdir á vegum. ef þungatakmarkanir eru ekki virtar, keyrt á hlið eða foktjón. 

Það er eðlilegt að taka tillit til aðstæðna og framkvæmda á svæðinu, láta stjórn vita ef til standa viðamiklir flutningar sérstaklega út af rafhliðinu og eins tilkynnir stjórn um fyrirhugað viðhald vega.  Vakin er athygli á því að í gildi eru að öllu jöfnu sérstakar þungatakmarkanir venjulega frá 1. apríl til 20. maí en þá er leyfilegur öxulþungi aðeins 3 tonn. Við sérstakar aðstæður gæti þó þetta tímabil breyst og er þá kynnt sérstaklega. Þungatakmarkanir gilda þann tíma að vori sem frost er að fara úr jörðu og vakin er athygli á því að heimilt er að kalla til lögreglu ef þetta er ekki virt.

Ganga þarf frá lausamunum svo þeir fjúki ekki.

7. Geymsla hluta, bíla eða hjólhýsa

Það er ekki ætlast til að félagsmenn komi með lausa hluti s.s. ÓSKRÁРökutæki t.d. vinnuvélar, óökufæra bíla og hjólhýsi til langtíma geymslu á svæðinu. Í skipulagðri frístundabyggð er óheimilt að jarðfesta hjólhýsi með því að byggja utan um þá palla eða viðbyggingar. Í hreppnum gilda ákveðnar reglur og sækja þarf formlega um svo kallað stöðuleyfi ef til stendur að geyma s.s. hjólhýsi eða gám á lóðum um einhvern tíma t.d. í tengslum við vega- eða byggingarframkvæmdir. 

8. Meðferð elds

Ávallt skal gæta fyllstu varkárni við meðhöndlun elds. Gróður eins og í Kerhrauni er mikill eldsmatur og berst eldur fljótt um svæðið. Í því ljósi bendum við á lög um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum frá 2015. Þar kemur m.a. fram að það er óheimilt að kveikja eld á víðavangi, á lóðum eða annars staðar utan dyra þar sem mönnum, dýrum, gróðri og mannvirkjum getur staðið ógn af.  Einnig er tekið fram að gæta skal ýtrustu varkárni við notkun búnaðar sem valdið getur íkveikju utan dyra. Með búnaði er m.a. átt við grill, ljós, útiarna, kerti og hitagjafa. Stjórninni ber síðan að sækir um sérstakt leyfi hjá lögreglunni á Selfossi og tilnefna ábyrgðarmann vegna árlegrar brennu félagsins, en hún þarf að standast ákv. viðmið s.s. stærðarviðmið.  Vakin er athygli á hættu á gróðureldum sem fylgir notkun flugelda, en þá má að jafnaði aðeins nota frá 28. des. til 6. jan. 

9. Dýrahald

Bent er á reglur sveitarfélagsins frá 13. janúar 2012 um hundahald í hreppnum en þar kemur m.a. fram að lausaganga hunda er með öllu bönnuð í hreppnum.  Einnig er þess óskað að þeir félagsmenn sem koma með ketti haldi þeim inni á meðan mesta fuglalífið er hvað mest í Kerhrauni og sjái til þess að þeir angri ekki fólk. Ef fólk er að staðaldri með önnur dýr á svæðinu, dýr sem gætu valdið ofnæmisviðbrögðum eða hræðslu, er eðlilegt að kanna viðhorf næstu nágranna. 

Reglurnar uppfærðar í febrúar 2024.