T h.E. ráðgjöf ehf. hefur í samstarfi við hóp framleiðenda á timbureiningahúsum í Svíþjóð hafið innflutning á heilsárshúsum af ýmsum gerðum og stærðum, auk þess sem nokkur raðhús verða einnig reist hér á landi á næstu mánuðum.Sænsku framleiðendurnir framleiða ekki aðeins einbýlishús heldur einnig skólahúsnæði, sjúkrahús, flugstöðvar, hótel og mótel, auk þess sem allnokkuð hefur verið framleitt af smáhýsum fyrir ferðaþjónustuaðila og húsum sérhönnuðum fyrir hjólhýsasvæði sem seld hafa verið víða um heim.
Unnið hefur verið að kynningu þessarar framleiðslu í nokkur ár á Íslandi en fyrsta húsið var reist í Borgarfirði fyrir tveimur árum.Í Kerhrauni í Grímsnesi á Suðurlandi hefur Ægisauður ehf., fjárfestingafélag á Akureyri, hafið uppsetningu á 13 húsum sem er 1. áfangi í 29 húsa pöntun. Þarna á að rísa frístundabyggð heilsárshúsa sem fólk getur nýtt allt árið eftir því hvað hverjum og einum hentar. Húsin í þessum áfanga eru níu hús sem eru 115 ferm. á einu gólfi og fjögur hús, 78 ferm. með 34 ferm. svefnlofti. Húsin eru boðin í fjórum mismunandi gerðum en Vífill Magnússon arkitekt staðfærir teikningarnar að íslenskum kröfum.
Þessum áfanga á að vera lokið um áramótin en annar áfangi hefst seinnipart vetrar og á að vera lokið næsta sumar. Húsin koma með 17 cm einangrun, hurðum og gluggum í einingunum og er þrefalt gler í öllum gluggum. Síðan eru innréttingar sem fylgja eftir smekk og þörfum kaupenda.Hér eru nú starfandi sex sænskir smiðir sérhæfðir í uppsetningu húsanna og vinna þeir í þriggja manna vaktaflokkum eftir ákveðnu kerfi og reisa þeir húsin með aðstoð krana og gera þau fokheld á 1 til 2 dögum ef aðstæður eru í lagi. Íslenskir verktakar sjá um að ganga frá grunnum auk þess sem aðrir iðnaðarmenn eru íslenskir, svo sem píparar og rafvirkjar.
Að sögn Þorgeirs Arnar Elíassonar, innflytjanda húsanna, hefur framkvæmdin gengið að óskum hingað til og mikill áhugi skapast fyrir húsunum og helmingur þeirra seldur þó enn sé ekki byrjað að auglýsa þau til sölu.
Fjórtán raðhús á Selfossi
Th.E. ráðgjöf ehf. hefur einnig gert samning um uppsetningu 14 raðhúsa úr timbri á Selfossi og er reiknað með að þau verði tilbúin til afhendingar á næstunni og rísi í lok þessa árs og byrjun næsta. Húsin, sem öll verða 163 ferm. að stærð, verða í tveimur raðhúsalengjum, 8 og 6 hús saman.“Sölusamningar þessir hafa vakið mikla athygli í Svíþjóð enda hleypt miklu lífi í byggingariðnaðinn í Dölunum í Mið-Svíþjóð,“ segir Þorgeir Örn. „Þar eru margir smáir framleiðendur sem taka höndum saman þegar stór verkefni rekur á fjörurnar enda ekki óvanir að fá pantanir erlendis frá. Í bænum Mora, sem er stærsti bærinn á svæðinu, er gefið út dagblað, Mora tidning, og hefur þegar verið fjallað um þennan smíðasamning á heilsíðu undir fyrirsögninni: „Hektisk höst í husfabriken“.
Það útleggst: „Rosalega mikið að gera í húsasmíðunum.“ Þar er sagt frá því að aldrei hafi verið svo mikið að gera í húsaframleiðslunni á staðnum, en Svíar hafi ekki getað sagt nei við hinum ævintýralegu pöntunum frá Íslandi.“