Kerhraun

Smá fróðleikur um jólin fenginn af vef Þjóðminjasafns Íslands

Jól hefjast nú aðfarakvöld 25. desember. Þau eiga sér á norðurslóðum ævaforna sögu tengda vetrarsólhvörfum. Nafnið er norrænt, og er einnig til í fornensku. Frummerking þess er óljós. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær jól voru haldin í heiðnum sið, sennilega með fullu tungli í skammdeginu. Ekki vita menn heldur hvernig þau voru haldin, nema að þau voru drukkin með matar og ölveislum. Buðu íslenskir höfðingjar oft fjölmenni til jóladrykkju. Norræn jól féllu síðar saman við kristna hátíð. Svipuð kristnun heiðinna hátíða um þetta leyti hafði áður átt sér stað suður við Miðjarðarhaf, og var þá ýmist minnst fæðingar krists eða skírnar. Á 4. og 5. öld komst sú venja víðast á að minnast fæðingarinnar 25. desember en skírnarinnar og tilbeiðslu vitringanna 6. janúar, og má þangað rekja jóladagana 13 á Íslandi. Helgi aðfangadagskvölds á rót sína í vöku sem almenn var kvöldið fyrir kaþólskar stórhátíðir enda var oft talið að sólarhringurinn byrjaði á miðjum aftni klukkan sex. Fasta fyrir jól var einnig lögboðin, stundum miðuð við Andrésmessu 30. nóvember, en oftast fjórða sunnudag fyrir jól. Þaðan eru sprottnir aðventusiðir síðari tíma. Mikil þjóðtrú tengist jólum og jólaföstu í miðju íslensku skammdegi.

Íslendingar eru mikil jólabörn. Lega landsins gerir það að verkum að hér er dimmt stóran hluta úr deginum þegar líður að vetrarsólstöðum. Það kann að skýra mikinn áhuga landsmanna á að skreyta húsin sín ljósum. jólum. Upp úr 1. desember fara jólaskreytingar að sjást fyrir alvöru í heimahúsum og flest eru þau orðin fullskreytt um miðjan mánuðinn. Fyrstu tvær vikur desembermánaðar eru mesti annatíminn í jólaundirbúningnum. Á flestum heimilum er mikill bakstur, allt upp í tíu tegundir af smákökum, randalín og  rúllutertubrauð svo eitthvað sé nefnt. Auk þess tilheyrir íslenskum jólaundirbúningi að gera heimilið hreint frá toppi til táar, kaupa gjafir, jólaföt og mat. Mikið er borist á í mat yfir jólahátíðina. Flestir borða reykt svínakjöt og rjúpur. Svínakjötshefðin er komin frá frændum vorum Dönum og er nýleg þar sem svínarækt á Íslandi á sér ekki langa sögu og lengi þurfti heilmikla útsjónarsemi til að komast yfir svínakjöt. Rjúpur eru aftur á móti séríslenskur jólaréttur. Líkt og laufabrauðið var rjúpan upphaflega fátækrakrás og bara borðuð á þeim heimilum sem höfðu ekki efni á að slátra lambi fyrir jólahátíðina. Á jóladag er svo borðað hangikjöt, en það er lambakjöt sem er reykt við sauðatað. Annar algengur réttur á matseðlinum er möndlugrautur sem er hrísgrjónagrautur sem fær nafn sitt af þeim sið að út í hann er sett mandla. Svo verður að borða grautinn þar til einhver bítur í möndluna og fær hinn heppni möndlugjöf.

Þorláksmessa er mikill annadagur hjá flestum. Jólatréð er skreytt, undirbúningur er hafinn við matargerð aðfangadagsins og síðasta skrautið er sett upp. Sumir eru jafnvel enn að ná í síðustu jólagjafirnar og margir nota daginn til að pakka þeim inn. Sú hefð að borða kæsta skötu á Þorláksmessu er upprunnin á Vesturlandi en sífellt fleiri hafa tileinkað sér þann sið. Á aðfangadag setja margir sígrænar skreytingar og logandi kertaljós á leiði ástvina og þá eru kirkjugarðarnir fallegir á að líta baðaðir ljósum. Klukkan sex á aðfangadagskvöld eru svo jólin hringd inn í kirkjum landsins, messur hefjast, kveikt er á ljósunum á jólatrjám í heimahúsum og fólk óskar hvert öðru gleðilegra jóla. Eftir ríkulega máltíð sest heimilisfólkið við jólatréð og gjöfunum er dreift.