Kæru Kerhraunarar – sumarið er tíminn!
Þetta vorið renna næstum saman páskadagur og sumardagurinn fyrsti og í raun bera báðir þessir dagar með sér von og birtu. Því vil ég, fyrir hönd stjórnar, óska ykkur öllum gleðilegra páska og gleðilegs sumars.
Nú fjölgar væntanlega ferðum okkar í Kerhraunið. Gróðurinn er allur að vakna af vetrardvala og fátt skemmtilegra en vera hér, fylgjast með fuglum, trjám og runnum laufgast, gróðursetja, ditta að og njóta björtu vorkvöldanna sem eru handan við hornið.
Meðfylgjandi sálmur tilheyrir sumardeginum fysta í hugum okkar skáta, en sálmurinn er eftir séra Friðrik Friðriksson. Mér finnst vel við hæfi að birta hér að lokum fyrsta erindið og óska þess aftur að sumarið verði okkur öllum gott og við njótum þess að vera hér í Kerhrauninu.
Dýrlegt kemur sumar með sól og blóm,
senn fer allt að vakna með lofsöngsróm,
vængjaþykur heyrist í himingeim,
hlýnar yfir landi af þeim fuglasveim.
Með páska- og sumarkveðjum,
f.h. stjórnar Fanný Gunnarsdóttir, formaður