Kerhraun

Opnun Kerbúðarinnar 2014 er orðin að veruleika

Það liggur alltaf einhver spenna í loftinu þegar búðarkonurnar fara að ræða um opnun og vöruúrval sumarsins, sumar hafa dálítð forskot enda alltaf að og otandi að manni prjónum í hvert sinn sem litið er inn, einhverjir hljóta að hafa heyrt smiðshöggin frá Gunna sem galdrar fram hvert stykkið á fætur öðru og svona verður lagerinn til.

Tóta hefur líka verið að síðustu daga að búa til sultur, marmelaði og alls konur mauk sem hún setur af mikilli natni í krukkur, tekur snöggan hring og þá er komið tilsniðið efni á lokið, ein sveifla og þá er bandspottinn kominn, síðasti snúningurinn er svo lokahnikkurinn, hnúturinn og krukkan er tilbúin, eða hvað?, ó nei það er sko búið að sérhanna logo sem margur gæti lesið sem Kerös en er það ekki en það verður vonandi Kerös í sumar…))). Svo vita þeir sem til þekkja að hún getur bakað 12 kökur í einu og kælileiðin er frábær, það er sko vindkæling..)))

Sóley hefur líka komið sterk inn í baksturinn og fjöldaframleiðir nú pönnukökur í stórum stíl og sagt er að þegar ein pönnukakan flýgur í loftið sé hinn næstum tilbúin á pönnunni og Gunni rúllar upp og hefur náð um 40 pönnukökum á 4 mínútum, sel það ekki dýrara en ég keypti. Hvað sem öllu þessu líður þá eru þessar konur að gera góða hluti og skemmtileg tilbreyting í sumarhúsalífið okkar.

Guðrúnu var bent á að hún yrði að gera eitthvað og hún hlýddi en það eru ekki jafn margir tímar að baka hjá henni eins og hinum tveimur en rétt er að taka það fram að þeir sem vilja leggja þessu verkefni lið og koma með vörur eru meira en velkomnir og eykur fjölbreytnina í vöruúrvalinu.

P1020639

Auglýst hafði verið að búðin yrði opnuð 7. júní klukkan 14:00 og nokkru áður keyrðu þær Tóta og Guðrún um svæðið og spiluðu fótboltabullulag og æptu svo í hátalara að Kerbúðin yrði opnuð með pompi og prakt eftir smá stund. Formanni var tilkynnt að hann yrði að opna búðina með ræðu, helst í bundnu máli og hann tók bara vel í það.

Allir mættu í sínu fínasta pússi og biðu spenntir eftir því að sláin yrði tekin frá en voru þó ekki í sandölum sem eru víst mikið  „inni“ í dag.

P1020649

Formaðurinn tók sér stöðu og hélt þrumandi ræðu og lýsti því yfir að Kerbúðin væri nú formlega opnuð árið 2014. Þess má þó geta að það er ekki víst að nokkur maður viti hver þessi maður er eftir nokkur ár, eins og í Spaugstofunni þá er alltaf maður á bak við allt og þessi maður bak við slánna er Ásbjörn formaður Jóhannesson. Fyrir þá sem ekki vita þá er með honum á myndinni tískudrottning Kerhraunsins hin þjóðkunna „Steinunn sandala“ sem fer ekki í sveitina til að tapa þessum titli.

P1020647

Auðvitað hafa sumir meira gaman að því að fara i búðir en aðrir, í ár var vöruúrval mikið og gaman að þessu öllu og það er það sem blífur og á staðnum var aðkomufólk sem hafði orð á því að hér hlyti að vera gaman að vera. Sigríður óperusöngkona lét aðeins í sér heyra þegar formaðurinn þandi raddböndin og sonurinn átti í stökustu vandræðum að velja það fallegasta í búðinni svo hrifinn var hann en endaði svo á því að slafra í sig böns af upprúlluðum pönnukökum.

P1020650

Þess má geta að það væri gaman ef fólk sæi sér færi á að styðja þetta skemmtilega framtak og kíkja við og líta á úrvalið, því hvað er betra en að sitja í pottinum með húfu frá Tótu, fljúgandi fugl frá Gunna í sigtinu og gæða sér að á kexi með osti og sultu.