G&T dagurinn 5. júní 2010 – Frábær

Gróðursetningar- og tiltektardagurinn rann upp bjartur og fagur enda orðin hefð fyrir því að veðrið skarti sínu fegursta þegar Kerhraunarar halda þennan dag. Í þetta skipti skipulögðu daginn Sóley, Anna María, Torfi og Steini og eiga þau þakkir skilið fyrir þeirra frábæra framlag.

Markmiðið með þessum degi var tvíþætt, annarsvegar að gróðursetja og hins vegar að hreinsa og fegra svæðið en þar sem svæðið er mjög snyrtilegt lá eingöngu fyrir að gróðursetja.

Smári byrjaði kl. 10:00 að grafa holur fyrir plönturnar en í ár lá fyrir að gróðursetja skyldi aspir og stafafurur. Kl. 11:00 dreif að fólk úr öllum áttum og hófst handa við að setja skít og mold í holurnar enda var allt tilbúið þegar plöntubíllinn kom. Það er skemmst frá því að segja að hlutirnir fóru að ganga hratt fyrir sig þegar Garðar kom með trillitækið og þeyttist um alla móa með mold og plöntur og fyrr en varði hrönnuðust plönturnar upp og fólk tók til við að vökva meðan aðrir hlúðu að.

Til að ljúka góðum degi var skundað í bústaðinn hjá Sóley og Gunna en þau hjón buðu upp á þessa flottu aðstöðu til að grilla pylsur og fá sér smá drykk og þau eiga miklar þakkir skilið.

Dagurinn tókst í alla staði mjög vel og það er mikil prýði að gróðrinum og nú er bara að bíða eftir næsta G&T degi.

 

Á innraneti: Myndir má sjá allar myndir sem teknar voru
á G&T deginum – Góða skemmtun