Alltaf koma þau nú aftur og aftur blessuð jólin, margs er að minnist á árinu sem er að líða m.a. aðalfundarins, þorrablótsins, gróðursetningarinnar, verslunarmannahelgarinnar, vegaframkvæmda og ekki má nú gleyma blessaða veðrinu sem gerði sér lítið fyrir og var hundleiðinlegt.
Nú er dimmasta hluti ársins að skella á og gaman að rifja upp að sá heiðni siður að halda „skammdegishátíð“ er enn á sínum stað hvað sem öllum trúarsetningum líður og tilgangur hans er vafalaust öðru fremur að lífga upp á sálartetrið sem var frekar vel þegið á þessum tíma ársins.
Áður fyrr höfðu jólin nefnilega ekki fastan dag heldur voru háð gangi tunglsins. Á fullu tungli var auðveldara að komast ferða sinna og ekki verra að hafa kveikt á „tunglinu“ þegar þurfti að bregða sér út til að pi..a í miðri jólaveislu. Þær veislur snérust ekki um gjafir, heldur mat, drykk og dans. Síðar bættust við þær jólaskraut og jólakveðjur.
Sumir segja að eitthvað hafi dregið úr tilstandinu eftir hrun og fólk gleðjist fyrir minna og meti meira hugvit og útsjónarsemi en ónytsamlegt og dýrt dót. Bann við þeirri ódýru skemmtun að spila á spil á jólunum, þar sem skrattanum er skemmt, er hluti af þeim alvarleika sem ku hafa verið guði mjög þóknanlegur. Nú eru runnir upp nýir tímar á Íslandi þar sem skynsemin er vonandi í fyrirrúmi og fólk gleðst yfir litlu og minnist þess að maður er manns gaman.
Að senda jólakveðju er skemmtilegur siður og því vill stjórnin senda Kerhraunurum óskir um gleðileg jól og farsældar á nýju ári og þakka fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða. Megið þið öll eiga ánægjuleg jól í faðmi fjöldskyldu og vina.
Þar sem jólin eru ekki alveg skollin á þá fylgir hér í lokin uppskrift að syndsamlega ljúffengum eftirrétti, sem er „við hæfi“ að láta eftir sér svona í árslok áður en syndunum verður kastað á áramótabrennuna.
Tiramisu (uppskrift fyrir 5 manns)
15 savoiardkexkökur eða Ladyfingers
300 g Mascarponerjómaostur (ný kærkomin framleiðsla MBF)
3 egg
1 staup romm (má sleppa)
3 tsk. sykur
1 bolli af mjög sterku kaffi
30 g kakó
Bleytið kexkökurnar í kaffinu og leggið á fat (úr gleri ef vill).
Þeytið eggjarauðurnar saman við sykurinn.
Þegar þeytingurinn hefur tvöfaldað ummál sitt, bætið þá Mascarponerjómaostinum og romminu út í og hrærið vel saman þar til léttfreyðandi krem verður úr.
Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið þeim varlega út í.
Hellið síðan öllu saman yfir kexkökurnar og kælið.
Rétt áður en eftirrétturinn er borinn fram skuluð þið sáldra kakóinu fínlega yfir hann.