Kerhraun

Áramóta- og nýárskveðjur – 2010

Stjórnarmenn óska öllum KERHRAUNURUM gleðilegs árs, farsældar á komandi ári og þakkar gott samstarf á árinu sem er að líða. Meðfylgjandi er smá fróðleikur um Gamlársdag og áramótin.

Í öðrum löndum hefur lengi tíðkast að kveikja í bálkesti við ýmis tækifæri, svo sem á hvítasunnu, kyndilmessu, Jónsmessu og allraheilagrasmessu. Ekki er vitað til þess að áramótabrennur hafi verið haldnar hér á landi fyrr en á ofanverðri 18. öld. Fyrir þann tíma var timbur og annar eldiviður einfaldlega of dýrmætur til að honum mætti sóa í slíkt. Allra fyrsta dæmið er frá árinu 1791 þegar skólapiltar úr Hólavallaskóla í Reykjavík söfnuðu saman tunnum og öðru timburrusli og kveiktu í á hæð sem þeir kölluðu Vulcan (vulcan er erlent heiti yfir eldfjall). Hæðin sem um ræðir er sennilega Landakotshæð.

Rúmum 50 árum síðar virðast áramótabrennur (og reyndar þrettándabrennur) vera orðnar nokkuð algengar. Ekki voru þær þó mjög hátíðlegar af lýsingu Klemenz Jónssonar (f. 1862) að dæma og segir hann þar hafa tíðkast mikið fyllerí og ólæti. Á þessum tíma var líka farið að dansa álfadans kringum brennurnar. Sá siður er ættaður frá piltum í Lærða skólanum sem frumsýndu árið 1871 leikritið Nýársnótt þar sem álfar komu við sögu. Þeir tóku sig svo til á gamlárskvöld, ásamt stúdentum þaðan og frá Kaupmannahöfn, og klæddu sig upp sem ljósálfa eða svartálfa, gengu niður að Tjörninni í Reykjavík með blys í hönd, dönsuðu og sungu álfasöngva.

Gamlársdagur er svo síðasti dagur ársins 31. desember. Þó við höldum upp á áramót um mánaðarmótin desember janúar þá hafa þau verið breytileg í gegnum tíðina. Hér á Íslandi verður 1. janúar að nýársdegi á 16. öld. Áður fyrr höfðu áramót verið á jólum. Jólanótt var þá líka nýársnótt. Í aldanna rás hafa áramót verið á mismunandi tímum. Hjá Rómverjum hófst árið til dæmis með marsmánuði. Þar er komin skýringin á því að síðustu fjórir mánuðirnir í okkar ári taka nöfn sín af latneskum töluorðum. September dregur nafn sitt af septem sem þýðir sjö þó september sé í raun níundi mánuður í okkar ári. Október dregur nafn sitt af octo sem þýðir átta, nóvember af latneska orðinu novem sem þýðir níu og desember dregur nafn sitt af decem sem þýðir tíu. Desember var því tíundi mánuðurinn hjá Rómverjum, janúar ellefti og febrúar sá tólfti.

Ýmsar aðrar dagsetningar hafa svo verið notaðar í gegnum tíðina en um það getið þið lesið í bókinni Saga daganna. Í dag eru áramót ekki alls staðar þau sömu.

Jarðarbúar nota heldur ekki allir sama tímatalið. Við miðum við fæðingu Krists og teljum að það séu 2006 ár síðan hann fæddist. Á þessu ári voru áramótin í Kína 29. janúar. Hófst þá Ár hundsins. Í íslam hófst árið 31. janúar með árinu 1427. Hjá gyðingum er nú árið 5767 en það ár hófst 22. september.

Ýmis þjóðtrú tengist áramótunum, sérstaklega nýársnótt og þrettándanum. Talið er að kýr tali og álfar flytji til nýrra heimkynna. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er líka frásögn af ýmsum kreddum er tengjast áramótunum og veðurfari. En kredda þýðir eiginlega hjátrú. Menn héldu að ef fyrsti dagur í janúar félli á sunnudag, eins og nú, yrði veturinn spakur og staðvindasamur, sumarið yrði þurrt, heyskapur mikill, vöxtur góður í nautum, kerlingadauði, nægð og friður eins og segir í þjóðsögunum. Verra er ef fyrsti janúar fellur á laugardag, þá ferst sauðfé og þá deyja gamlir menn.

Allir krakkar og líka KERHRAUNARAR hlakka til gamlársdags og þá sérstaklega gamlárskvölds. Við höldum upp á áramótin með flugeldum, brennum og veisluhöldum af ýmsu tagi. 

                                                     GLEÐILEGT NÝTT ÁR