Kerhraun

Áramótakveðja 2014/2015

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Það eru vissulega orð að sönnu, en minningarnar lifa hvort sem manni líkar betur eða verr. Ljúfar minningar kveikja bros á meðan erfiðir tímar kalla fram trega og söknuð.

Ég leyfi mér að vona að þið hafið átt gott og farsælt ár með sælustundum í sveitinni þrátt fyrir alla vætuna. Í sumar þegar við hjónin vorum búin að vera 14 rigningardaga samfellt í Heiðarási spurði ég: „af hverju fengum við okkur ekki hús á Spáni?“  „Af því að við erum Íslendingar“ svaraði hún og svo er rigningin góð fyrir trén“.

Núna, þegar allt er á kafi í snjó annan daginn en rignir svo burt hinn daginn þá leiði ég oft hugann suður á bóginn, en segi ekki orð, hef það bara fyrir mig. Svona er lífið, hvert okkar lítur það sínum augum og þannig á það að vera.

Ég óska ykkur öllum velfarnaðar á nýju ári með von um friðsælt og gott samfélag í Kerhrauni nú sem fyrr.

 

Ásbjörn R. Jóhannesson , formaður.

 

2560x1600