Í dag 1. nóvember 2020 voru aðalfundargögn 2019 sett inn á innranet heimasíðunar og Kerhraunurum var sendur tölvupóstur með nauðsynlegum upplýsingum. Fanný Gunnarsdóttir, formaður ritaði „Stiklur – störf stjórnar“ f.h. stjórnar og er því tilvalið að eiga þær hér inni á síðunni.
Stiklur – störf stjórnar
Mig langar í þessum stiklum að fara aðeins yfir hlutverk og störf stjórnar frá síðasta formlega aðalfundi. Að vera í stjórn í eins lifandi félagi og okkar kallar á fjölbreytta vinnu og viðveru að vera alltaf til taks fyrir félagsmenn með upplýsingar og ráðgjöf. En hvað fellur undir verksvið stjórnar? Eitt af megin verkefnum stjórnar hverju sinni er að setja- og starfa eftir samþykktri framkvæmdaáætlun, nýta með skynsömum hætti fjármuni félagsins og gæta hagsmuna félagsmanna.
Frá því að núverandi stjórn tók við höfum við haldið 8 formlega stjórnarfundi, félagsmenn hafa greiðan aðgang að fundargerðum stjórnar á innraneti heimasíðunnar og geta því fylgst með því sem stjórnin ræðir og ákveður. Við höfum síðan sérstakt svæði á fésbókinni þar sem við skiptumst á skoðunum, komum skilaboðum á milli og getum verið í beinum samskiptum svo oft sem við teljum þörf á. Raunin er sú að það líða ekki margir dagar á milli samskipta enda er þessi vettvangur mikilvægur á tímum sem erfitt er um vik að funda. Kerhrauni má með sanni líkja við þorp með tæplega 130 lóðum og í raun erum við að sinna mörgum þeim verkefnum sem sinna þarf í litlum þorpum.
Hér nefni ég nokkur dæmi um verkefni stjórnar á liðnum mánuðum:
• Vegagerð – árlega þarf að meta ástand vega á svæðinu, skipuleggja og halda utan um viðhald vega og snjómokstur. Afla tilboða og fylgja eftir framkvæmdum. Undir vegagerð fellur aðkoma okkar að Samlaginu sem heldur utan um samlagsveginn okkar, en Guðrún Njálsdóttir og Hallur Ólafsson eru fulltrúar okkar í þeirri stjórn – Guðrún sem formaður en Hallur ráðgjafi. Við höfum tvö síðustu sumur lagt sérstaka áherslu á uppbyggingu vega, bæði hér innan girðingar og samlagsveginn. • Girðingar – við tryggjum að árlega sé gengið meðfram öllum girðingum og ástand þeirra metið. Það þarf alltaf að sjá um nauðsynlegt viðhald en nú eru nýjar og nýlegar girðingar utan um allt svæðið.
• Vera til taks – fyrir nýja Kerhraunara. Það hefur fjölgað í okkar hópi, mikið byggt og mörgum spurningum sem þarf að svara um allt milli himins og jarðar. Því ákváðum við að setja saman gátlista um það helsta sem við teljum nauðsynlegt að Kerhraunarar viti – sjá heimasíðu og fésbók.
• Umgengni – það eru mörg ár síðan við settum okkur sameiginlegar umgengnisreglur sem við eigum öll að þekkja og virða. Það er hægt að nálgast þær á heimasíðunni. Hér erum við að tala um t.d. ökuhraða innan svæðis, hávaða á svæðinu, rusl og drasl og að virða þungatakmarkanir til að verja vegina okkar. Við vitum að gestir í Kerhrauni hafa orð á því hvað svæðið er fallegt og snyrtilegt – og þannig viljum við hafa það. Því hefur stjórnin brýnt fyrir félagsmönnum að fara eftir þessum reglum, bæði sett inn ábendinar á netið og svo rætt beint við félagsmenn.
• Gámasvæðið – það tengist óneitanlega umgengni. Stjórnin ákvað fyrir ári að kaupa góðan geymslugám og koma honum fyrir á planinu, en það á eftir að ganga endanlega frá honum. Félagið á ýmsar eiginir s.s. blómapotta, leiktæki, girðingarefni o.fl. sem er ómetanlegt að hafa á einum stað. Eins og við vitum þá er á svæðinu dósagámurinn okkar og ég vil nota þetta tækifærit til að hvetja okkur öll til að safna dósum. Ef safngámurinn er fullur þá endilega setja dósapokana inn í gáminn okkar. Það hefur komið fram í upplýsingum frá hreppnum að nú er hafin flokkun á heimilissorpi á svæðinu. Stjórnin setti því saman leiðbeiningar um flokkunina og skil á heimilissorpi og birti á heimasíðunni og fésbókinni. Það verður þannig að hver og einn verður að passa sig og sitt sorp því ruslagámurinn okkar mun fljótlega fara af svæðinu.
• Sameiginleg svæði – eins og undanfarin ár skipulagði stjórnin sameiginlega vinnudaga á svæðinu – G&T daginn. Við þekkjum öll þau fjölbreyttu störf sem félagsmenn vinna á deginum en síðasta sumar var þó með öðrum hætti. Þá var dagurinn í raun tvískiptur, ákveðin vorverk voru unnin í vor en síðan var aftur blásið til vinnudags í september. Þá var farið í að gróðursetja 50 furur á sameiginlega svæðinu. Það er gaman að fá tækifæri til að geta þess að nú höfum við skipulega plantað trjám á sameiginleg svæði í 11 ár – geri aðrir betur. Dósirnar okkar standa undir trjákaupum, stjórnin leitar tilboða í góð tré á góðu verði – tilboða sem félagsmönnum stendur einngi til boða að nýta sér. Á sama hátt hefur félagsmönnum staðið til boða að kaupa mold sem keyrð er heim að dyrum. Það kostar skipulag og yfirlegu að sjá um þennan þátt starfsins í Kerhrauni. Hvað ætli við þurfum að gróðursetja mikið til að kolefnisjafna keyrsluna í Kerhraunið? Stjórnin hefur einnig haft umsjón með leiksvæðinu, séð um að koma þar upp merkingu, viðhalda leiktækjum og útbúið kassa með ýmsu dóti til útileikja.
Áhugasamir Kerhraunarar hafa síðan verið tilbúnir að taka að sér ákveðin verk þannig að leiksvæðið verði fallegt og öruggt. Við bættum líka við bekkjum í varðeldalautina, við keyptum efni á Snæfoksstöðum og handlægnir Kerhraunarar settu bekkina saman og gengu frá þeim.
• Samvera – stjórnin skipulagði eða kom að árlegum viðburðum, G&T dögum og dagskrá um Verslunarmannahelgari . Eins og margt annað þetta árið lituðust þessir dagar af veirunni sem okkur tekst illa að ráða við og allir verða að taka tillit til. Dagskráin um síðustu Verslunarmannahelgi breyttist aðeins en góður Kerhraunari, Harpa Sævarsdóttir, tók að sér að skipuleggja skemmtilegan ratleik fyrir börnin, öll börn á svæðinu fengu smá glaðning og verðlaunapening en við urðum að sleppa varðeldinum um kvöldið. Samverustundir sem þessar eru ómetanlegar, við kynnumst og tengjumst betur saman. Vonandi getum við tekið upp hefðbundið skipulag næsta vor!
• Öryggismál– stjórnin sér um að tryggja öryggi okkar með því að hafa svæðið lokað af, það þarf að fylgjast með hliðinu, tryggja að girðingar haldi, sjá til þess að myndavélin virki og vindpokinn góði sé í lagi. Við höfum nú næstum lokið við gerð flóttaleiðar út af svæðinu. Sú vinna var unnin í samstarfi við hreppinn og með vitund Brunavarna Suðurlands. Þegar frágangi er að fullu lokið komum við til með að merkja og kynna flóttaleiðina vel og vandlega. Í raun má segja að frágengnir göngustígar á svæðinu geti einnig gegnt ákveðnu hlutverki ef til flótta kemur. Einnig er það öryggismál að halda vel utan um félagatal og hafa réttar upplýsingar s.s. símanúmer og netföng. Því fór stjórnin í það að uppfæra öll símanúmer sem hafa aðgang að hliðinu. Boðið var upp á nýjar fjarstýringar og app eða snjallforrit sem félagsmenn geta sótt og nýtt til að komast inn á svæðið. Eins og áður fylgja þrjú símanúmer hverju húsi og stjórnin vill leggja áherslu á að við höldum vel utan um aðgang utanaðkomandi fólks að svæðinu. Stjórnin hvatti félagsmenn til þess að fá sér öryggisnúmer á húsin sín, það eykur verulega öryggi. Við viljum reyna eftir fremsta megni að halda óboðnum gestum utan girðingar; fólki, kindum, hestum og hundum. Í öryggismálum verðum við alltaf að vera á verði – öll fyrir eitt.
• Kerbúðin – aðkoma stjórnar að henni er fyrst og fremst að skapa félgasmönnum vettvang til að selja og kaupa varning sem oftar en ekki er heimatilbúinn. Árlega metur stjórn hvort og þá hvað þurfi að gera til að húsið sé í góðu standi, en með reglulegu millibili þarf að mála og ditta að. Það er dásamlegt að hafa þessa búð, búð sem er okkar, búð sem við getum rölt út í og átt viðskipti með því að setja peninga í mislita plastbauka. Hvar er það hægt nú til dags? Í vor settum við síðan upp nýja fánastöng við Kerbúðina.
• Halda utan um söguna – það er mat stjórnar að heimasíðan geymi ómetanleg gögn um sögu Kerhrauns. Myndir og frásagnir frá fyrstu dögum félagsins eða í um 11 ár. Það má nefna myndir af öllum húsum á svæðinu árið 2019, myndir sem sýna hvað svæðið hefur gróið upp, upplýsingar um tilurð hitaveitunnar, félagsmenn að gera sér glaðan dag, vegagerð á svæðinu og svo mætti lengi telja. Hugsum okkur heimildagildið eftir 10 til 15 ár? Þegar síðan er skoðuð sjáum við að í sumar eru 10 ár frá því að við fengum heitt vatn frá Hæðarenda. Það var mikil vinna og stór framkvæmd, en félagsmenn lögðust á eitt, settu á laggirnar starfshóp og verkið var unnið. Á svipaðan hátt má segja að við séum nú að vinna að vegabótum á svæðinu og á heimasíðunni má sjá allar þær framkvæmdir sem unnar hafa verið síðasta áratuginn. Því viljum við í stjórninni reyna að halda síðunni úti og því fórum við í það að fjölga auglýsendum en það er einmitt þóknunin fyrir auglýsingarnar sem stendur undir kostnaði við síðuna.
• Samvinna og samstarf við nágranna og hreppinn – á liðnum mánuðum hefur stjórnin verið í gagnlegum og góðum samskiptum við hreppinn t.d.varðandi nýjar reglur um sorpflokkun og við afhentum grænu körfurnar frá hreppnum, um viðunandi þrýsting á kalda vatninu, samþykki á flóttaleið, kynna sóttvarnarreglur og vegna frágangs á geymslugámnum okkar. Einnig hefur stjórnin aflað upplýsinga um námuna í Miðengi, verið í sambandi við UTU á Laugarvatni ( Upplýsinga- og tæknisvið uppsveita ) vegna uppbyggingar á nálægu landi, við RARIK vegna vinnu þeirra hér á svæðinu og við Heilbrigðiseftirlitið á Suðurlandi þar sem við óskuðum eftir rannsókn á gæði kalda vatnsins. Í gegnum Samlagið erum við nú í mun nánara sambandi við nærliggjandi sumarhúsafélög, enda margt sem við getum sameinast um. Á síðustu árum hefur þeim málum fjölgað þar sem stjórnin hefur talið nauðsynlegt að leita eftir áliti lögfræðinga enda tengjast lífinu í Kerhrauni fjölbreytt lög og reglugerðir sem við verðum öll að fara eftir. Nú síðast má nefna reglur um gróðursetningar trjáa á lóðamörkum – að næstu lóð, út við vegi og að göngustígum. Stjórnin mun kynna þessar reglur betur á næstu vikum.
Að lokum má segja að við í Kerhrauni séum nokkuð sjálfbært samfélag. Við eigum innan girðingar handlagna iðnaðarmenn, úrræðagott fólk og sérfræðinga á ýmsum sviðum sem alltaf eru tilbúnir að leggja lið. Einnig rekum við eigin verslun og íbúarnir eru öflugir í að byggja upp, bæta og fegra svæðið. Það er ábyrgðarmikið en gefandi starf að taka að sér að sitja í stjórn og mörgum verkefnum þarf að sinna. Verkefni sem dags daglega eru ekki fyrir augum hvers félagsmanns. En eins og sést af því sem tæpt hefur verið á hér að ofan er fátt samfélgi okkar í Kerhrauni óviðkomandi Það er gaman að hafa tækifæri til þess að gera Kerhraunið enn betra og að dásamlegri stað. Það er gaman að koma í Kerhraunið og njóta þess að vera hluti af lífinu á staðnum. Það er gaman að eiga góða nágranna og það er gaman að upplifa hjálpsemi og samstöðu. Að því sögðu ættu Kerhraunarar að bíða í röðum eftir því að fá að koma í stjórnir og vinnuhópa. Með þessum orðum lýk ég stikklum úr starfi stjórnar á tímum Covid-19 með von um að með hækkandi sól takist okkur að blása til aðalfundar, kjósa nýja stjórn, leggja fram nýja framkvæmdaáæltun, samþykkja reikninga og njóta samverunnar.
f.h. stjórnar, Fanný Gunnarsdóttir formaður