Það var hér á árum áður þegar við vorum að byrja að hugsa um að eitthvað yrðum við að gera fyrir börnin í Kerhrauni um Versló til að hafa ofan af fyrir þeim, að einhverjum datt það snjallræði í hug að fara í leiki og þrautir, því var hafist handa við að skipuleggja og þar kom hann „Garðar gleðipinni“ við sögu og hélt uppi fjörinu í mörg ár.
Mörg börn hafa verið með á hverju ári, ein var það sem mætti í byrjun með sitt mikla keppnisskap og var með öll árin sem hún bjó hér á Íslandi eða þar til hún stakk af eins og Garðar og fluttist til Qatar, nú er hún komin aftur heim sem ung stúlka og getur því ekki lengur tekið þátt í barnaleikjum.
Hér er verið að tala um hana Hrafnhildi Tinnu sem er afabarn þeirra Ásgeirs og Kristínar. Það þótti því tilvalið að veita henni verðlaun fyrir öll árin sem hún tók þátt í leikjunum og nú er bara að fylgjast með þeim sem keppa í bootcamp og dansi því hennar nafn verður örugglega getið ef verðlaun eru veitt í þessum íþróttagreinum.