Til að tryggja að enginn fá hland fyrir hjartað þá tilkynnist það hér með að í pistli þessum eru engar myndir birtar frá þorrablótinu sem ekki standast ritskoðun, þær myndir sem ekki eru birtingarhæfar verða sýndar á sérstöku myndakvöldi sem haldið verður í Kerhrauni í vor til fjáröflunar á malbiksframkvæmdum á svæðinu.
Fyrir þorrablót þarf alltaf að byrja á því að slappa af
Að fá hugmyndir þýðir ekki endilega að þær geti orðið að veruleika, samt hafa sumir lag á því að tala stanslaust um hugmyndir sínar og einhvern veginn það æxlaðist þá náði Sóley að tala svo mikið um þorrablótið að við sem í kringum hana erum, við vorum alveg komin á sömu línu og hún. Þá brosti Sóley út í annað, það hlakkaði aðeins í henni og hún hugsaði, „ég vissi þetta myndi ganga“ og þannig var það, það gekk allt upp og það með glans.
Nefndin sem enginn hafði skipað varð allt í einu til, þeir sem voru í henni vissu ekki fyrr til en að þeir voru komnir í hringiðu þorrablótslífsins og nú varð ekki aftur snúið. Það er búið að segja frá undirbúningsfundinum þar sem Guðbjartur hugleiddi helminginn af fundinum, þorrakonur höfðu lag á því að innvolvera maka sína í flest verk, verkaskipan orðin ljós og allir unnu sitt verk af einstakri kostgæfni.
Þegar þorrablótið var auglýst þá var mikill spenningur í gangi að vita hverjir það yrðu sem bókuðu sig, það leið ekki á löngu þar til úrvalshópur hafði myndist og húsið nánast að verða fullt, það bókuðu sig 25, 23 komu og þessir 2 sem ekki komu voru veikir.
Auglýstur tími var kl. 20:00, fljótlega kom í ljós að þessi tímasetning gengi ekki upp því sagan segir að þegar Svana tók ákvörðum um að bjóða Bjartalund fram þá tók mín til sinna ráða, virkjaði Guðbjart og þau hjón voru eins og „hvítir stormsveipar“ að gjörbylta húsinu, það er engin lygi að það hefði alveg mátt halda þorrablótið á föstudeginum því það var allt klappað og klárt og geri aðrir betur.
Tímasetningin var komin í þá stöðu að henni mátti breyta eftir vild. Yrði það gert átti eftir að koma í ljós.
Eins og sjá má hér að neðan þá lagði Svana mikið á sig að láta þetta „lúkka flott“ og tókst.
.
.
Hér var komið að Sóley að koma með matinn, allt tilbúið
Sóley sem tekið hafði að sér innkaupin brunaði á Selfoss snemma á föstudeginum með Gunna sinn sem burðardýr og bónusmenn héldu að hún væri stórgrósser úr Hafnarfirði sem planað hefði að halda upp á 40 ára afmælið um komandi helgi en auðvitað vitum við betur, hún er að nálgast 40 ára aldurinn, aftur á móti varð Elvar 50 ára þorrablótsdaginn þann. Hún sveif um búðina með innkaupalistann og Gunni sveiflaðist á eftir henni og mátti hafa sig allan við, hún var nefnilega bæði að segja honum hvað hann ætti að setja í kerruna og skipuleggja í símanum hver ætti að ná í harðfiskinn, hvort drengurinn væri búinn í skólanum og spyrja búðarfólkið um verð á hinu og þessu, þetta getur enginn nema Sóley.
Innkaupunum lauk hún með stæl, þegar innkaupalistinn var tæmdur var ekkert annað að gera en að bruna aftur heim sem þau og gerðu, þar var tekið til við að undirbúa og það var sama sagan með hana og Svönu, „hvítir stormsveipar“ voru á ferð og flugi.
Þegar fólk fór að týnast á svæðið og vildi bjóða fram aðstoð við bara eitthvað, þá þurfti ekki að hjálpa neinum við neitt því það var allt tilbúið, til þess að hafa eitthvað að gera þá var ákveðið að flýta þorrablótinu til 6:30. SMS fóru að fljúga í allar áttir og það leið ekki á löngu þar til allir gestirninr höfðu staðfest breyttan tíma. Nú var nefndin komin á alvarlegt stig, tilhlökkunarstigið.
Það sem gekk á hjá hinum þorrablótsgestunum fara engar sögur af, þó var vitað að flestir væru í ströngum undirbúningsfíling, aðrir lágu yfir skemmtiefni en öll áttum við það sameiginlegt að hlakka til stundanna sem í vændum voru. Tíminn leið ótrúlega hratt og fyrr en varði var kominn tími til að leggja af stað og myndatökumaðurinn var sá fyrsti sem mætti því ekki ætlaði hann að missa af því að ná myndum af gestunum þegar þeir streymdu að. Hann hafði verið þvingaður fyrr um daginn af nefndinni, verið látinn sverja að engar myndir yrðu teknar þegar gestirnir væru búnir að drekka 2-3 vatnsglös svo það var eins gott að ná þá myndum af þeim fyrir þann tíma.
Guðbjartur, ekki reyna að troða einhverri grisju fyrir linsuna, þú ert bara búinn með 1 vatnsglas