7. stjórnarfundur 30.mars 2024

Fundurinn haldinn á Grund í Kerhrauni hjá Herði Gunnarssyni formanni og hófst kl. 11:00.

Mætt voru: Hörður Gunnarsson, Ásgeir Karlsson, Hans Einarsson, Guðrún Njálsdóttir og Svava Tyrfingsdóttir. 

Dagskrá:

1. Aðalfundur 2024  

2. Framkvæmdaáætlun 2024

3. Kynnt samkomulag um dósalosun

4. Samlagsstjórn 2024 

5. Hitaveita – staðan

6. Önnur mál
a. Seyðishólanáma – framkvæmdaleyfi

b. Fundur með Brú félagi stjórnenda

  1. Aðalfundur 2024

Stjórnin ákvað að boða aðalfund þann 16. apríl n.k. í húsnæði Rafmenntar að Stórhöfða 27 og hefst fundurinn kl. 19:30.  Hann verður vel auglýstur með tölvupósti og í Facebook hópnum. Varðandi mönnun stjórnar 2024 og samkvæmt lögum félagsins þarf að kjósa formann til 1 árs. Hans Einarsson, Ásgeir Karlsson og Guðrún Njálsdóttir hafa lokið sinni stjórnarsetu en Svava Tyrfingsdóttir á eftir sitt seinna ár. Því þarf að kjósa formann og þrjá nýja stjórnarmenn en nú þegar hafa tveir félagsmenn boðið sig fram til stjórnarsetu næstu tvö árin.

En vert er að taka fram að áhugasamir um stjórnarsetu geta sent tölvupóst á formadur@kerhraun.is. Síðan var farið yfir skipulag aðalfundar og lögbundin störf fundarins.

2. Framkvæmdaáætlun 2024

Stjórn samþykkti einróma drög að framkvæmdaáætlun 2024 og verða þau lögð fram til kynningar og samþykktar á aðalfundinum.

3. Kynnt samkomulag um dósalosun

Hörður Gunnarsson formaður sagði frá því að í ljósi þess að enginn hefði boðið sig fram í félaginu að taka að sér umsjón og losun flöskugámsins gegn gjaldi þá hefði hann haft samband við Græna skáta og þeir væru tilbúnir að taka að sér að sækja og losa gegn 50/50 kostnaðarskiptingu.

Stjórnarmenn voru einróma sammála um að taka þessu tilboði frekar en að hætta söfnun og verða þar með af tekjunum.

4. Samlagsstjórn

Fram kom að kjósa þarf 2 fulltrúa í samlagsstjórn. Guðrún Njálsdóttir hefur gengt embætti formanns frá upphafi og ásamt henni hefur Hallur Ólafsson setið í stjórn samlagsins. Stjórnin óskaði eftir því að þau gæfu aftur kost á sér í stjórn Samlagsins.

5. Hitaveita – staða

Stjórnin ræddi um stöðu hitaveitunnar en að undanförnu hefur borið ítrekað á því að bilun hafi komið upp í henni sem skert hefur afhendingaröryggi til okkar. Í samtölum stjórnarmanna við Sigurð Jónsson hefur komið fram að alvarleg bilun er í annari borholunni.

Tillaga samþykkt um að 2-3 aðilar myndu óska eftir fundi með Sigurði Jónssyni, rekstraraðila Hitaveitu Hæðarenda til að kynna sér aðstæður og kanna stöðu mála. Ákveðið var að formaður kynnti stöðu hitaveitunnar sérstaklega á aðalfundinum.

6. Önnur mál

  1. Seyðishólanáma – framkvæmdaleyfi

Stjórnir Kerhrauns og Kerhrauns E samþykktu tillögu Harðar Gunnarssonar og Guðrúnar Njálsdóttur um að fá Berg Hauksson, lögmann til að gæta hagsmuna félagssmanna vegna endurnýjaðar útgáfu framkvæmdaleyfist upp á 500.000m3 til næstu 15 ára en síðustu 72 ár hefur verið tekið 450.000m3 úr námunni.

Fram kom að þarna á að fara fram stórfelld námuvinnsla, mest megnis til útflutnings, sem frístundahúsafélögin á svæðinu hafa mótmælt harðlega. Þau vilja óbreytta magntöku sömu og verið hefur. Ef af þessari miklu vinnslu verður breytist ásýnd Seyðishóla verulega og eyðileggingin óafturkræf.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum hefur GOGG tekið ákvörðum um að lóðir í 1 km radius frá námunni fái að taka þátt í grenndarkynningunni en það útilokar fjölda lóðaeigenda. Stjórnin ákvað að koma á framfæri við sveitarstjórn hörðum mótmælum við þessum þröngu skilmálum.

2. Fundur með fulltrúa Brúar félags stjórnenda.

Hörður Gunnarsson óskaði eftir fundi með Sigurði sem er í forsvari hjá Brú og varð hann við því. Guðrún Njálsdóttir fór með Herði á fundinn.

Farið var yfir mál sem snerta breytta notkun á svæðinu þar sem Brúarhúsin eru að mestu leigð út allt árið. Því fylgir fjölgun fólks á svæðinu. Á fundinum áréttaði Hörður að umgengnisreglurnar okkar væru mikilvægar og þær bæri að virða.

Fram kom á fundinum að Brú og Starfsmannafélag Mosfellsbæjar hefðu samið um snjómokstur við Jóhannes Guðmundsson á Klausturhólum þannig að þegar Kerhraun mokar ekki munu þeir sjá um að moka að sínum húsum. 

Fundi slitið kl 12:45 

Fundargerð ritar
Svava Tyrfingsdóttir